131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:11]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar fyrr í dag og var hálfundrandi á þeim sjónarmiðum sem þar komu fram. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sömu skoðunar og hv. þm. Einar Már Sigurðarson, að það eigi að setja sérstakar takmarkanir við því með hvaða hætti félagasamtök eða einstaklingar geti komið að háskólanámi hér á landi og að því að efla háskólastofnanir.

Nú er það svo að á bak við stofnun hins nýja háskóla sem við erum hér að ræða standa félagasamtök, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Verslunarráð Íslands og það liggur ljóst fyrir að á bak við stofnun þessa skóla er ekki gróðafíkn eða arðsemissjónarmið heldur vilji til þess að treysta það nám sem fer fram í háskólanum. Þessi félagasamtök telja best að gera það með því að hér sé um hlutafélag að ræða.

Á hinn bóginn boðaði hv. þm. Einar Már Sigurðarson að einhvern tíma kynni að því að koma, sem margir brostu að, að Samfylkingin fengi embætti menntamálaráðherra og bætti því síðan við að auðvitað væri mönnum frjálst að stofna hlutafélag um háskóla en þeir gætu þá ekki vænst þess að fá sama stuðning við slíkan rekstur eins og ef það væri sjálfseignarstofnun eða ríkisskóli. Þetta var mjög merkileg yfirlýsing hjá hv. þingmanni og ég vil spyrja hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur hvort hún taki undir með Einari Má Sigurðarsyni um þessi atriði.