131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:55]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur alveg fyrir að ef Samfylkingin styddi þessa sameiningu og hinn nýja háskóla kæmi það fram í nefndarálitinu. Það gerir það bara ekki og þar af leiðandi hlýtur maður að álykta sem svo að Samfylkingin styðji ekki sameininguna, annars stæði það í nefndarálitinu. Það gerir það því miður ekki.

Mig langar til að víkja að öðru sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Það voru áhyggjurnar af hinu akademíska frelsi, að því væri ógnað ef háskólinn væri rekinn á einkahlutafélagsformi, vegna þess að í slíkum háskóla mundu háskólamenn ganga erinda eigenda sinna. Ég hlýt að spyrja: Er því einhvern veginn öðruvísi háttað þegar ríkið er eigandi? Heldur hv. þingmaður því fram að vísindamenn í Háskóla Íslands gangi erinda ríkisins í rannsóknarstarfi sínu? Gildir það sama um aðrar ríkisstofnanir eins og t.d. dómstólana? Dómstólarnir eru reknir af ríkinu. Þar eru ríkisstarfsmenn. (Gripið fram í.) Heldur (Forseti hringir.) hv. þingmaður því fram að Hæstiréttur Íslands (Forseti hringir.) gangi erinda ríkisins í störfum sínum?