131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:56]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr eins og hv. þm. Mörður Árnason kallaði út í sal: Ertu að fara að einkavæða dómstólana? (SKK: Nei, nei, nei.) Það er nú það sem við stöndum frammi fyrir hér og er það sem við erum að ræða hér, þ.e. að það er verið að einkavæða akademíska stofnun.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna í umsögn Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, og gera þau orð að mínum. Þar segir:

„Í athugasemdum við frumvarpið er boðað að hinn nýi skóli verði rekinn sem einkahlutafélag. Um nýmæli er að ræða hér á landi sem löggjafinn þarf að skoða nánar. Engin trygging er fyrir því að háskólakennarar sem ráðnir eru af einkahlutafélagi búi við akademískt frelsi sem er einn af hornsteinum háskólastarfsemi í hinum vestræna heimi. Svo dæmi sé tekið þá er akademískt frelsi háskólakennara stjórnarskrárvarinn réttur í Bandaríkjunum.“ (Gripið fram í.)

Og, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, ég tel að það skipti mjög miklu máli þegar um er að ræða hlutabréf sem ganga kaupum og sölum (Forseti hringir.) ef þú veist ekki hver eigandinn er frá degi til dags og til framtíðar.