131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:01]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alrangt hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að ég vilji veita ráðherrunum löggjafarvaldið, það er af og frá. Við erum búin að vera í vinnu núna á þriðja mánuð er varðar þetta tiltekna mál. Ég tel þá umræðu sem við höfum átt ansi góða og lýðræðislega og hún stendur enn. Ég bendi á að við getum ekki tekið okkur eitt, tvö ár í svona umræður, það gengur ekki. Við vitum að um 2.500 nemendur ásamt kennurum bíða eftir því að vita og sjá hver framtíð þessa skóla verður, þessa skóla sem er að fara í nýtt umhverfi, fara í samkeppni og þarf að undirbúa sig fyrir næsta skólaár og það er engin ástæða til að bíða. Við eigum að taka ákvarðanirnar klárt.