131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:43]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði eiginlega ekki þeirri spurningu sem ég varpaði fram. Ég varpaði henni fram vegna þeirrar tímamótayfirlýsingar sem kom fram í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar fyrr í umræðunni og ég rakti hér. Hv. þingmaður lýsti því yfir að verði þetta frumvarp að lögum og Samfylkingin komist einhvern tíma síðar til valda í menntamálaráðuneytinu muni flokkur hans standa fyrir því að lögunum verði breytt, til þess verði beitt valdboði, að löggjafarvaldinu verði beitt gegn því fólki sem ætlar að starfrækja þennan skóla sem við erum hér að tala um að verði til eftir sameininguna. Það voru yfirlýsingar um þetta í umræðunni í dag og þær eru makalausar.

Mig langar til þess að heyra frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur: Er hún sammála þessu sjónarmiði? Telur hún að komist hún í þá stöðu að stjórna hér menntamálum, eða flokkur hennar, verði það eitt af verkum hennar að breyta þessum lögum og reyna að koma því kerfi á í háskólasamfélaginu að hér verði bara einn ríkisskóli? Það er ekki hægt að lesa aðra stefnu út úr minnihlutaálitinu en að það sé sú sýn sem hv. þingmaður aðhyllist. Það er ekki hægt að draga neinar aðrar ályktanir af því en að hér eigi bara að vera einn ríkisskóli og ekkert annað, sem ríkið rekur, og að það eigi að ganga á milli bols og höfuðs á einkaaðilum sem voga sér að reka menntastofnanir.

Mig langar bara til að vita það: Komist hv. þingmaður í þá aðstöðu að vera hér í meiri hluta á þingi, mun hún beita sér fyrir því að sú verði raunin? Er þetta framtíðarsýn Vinstri grænna og hv. þingmanns?