131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:18]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er heldur ekki að draga í efa dómgreind þessara aðila en hvers vegna gátu þeir ekki komið að skólanum meðan hann var Tækniháskóli Íslands með fjármuni, mannauð, kraft og afl og hugmyndir og allt sem heiti hefur? Hvers vegna þurfa þeir að eiga einkahlutafélagið sem rekur skólann? Hvers vegna? Hver er munurinn á því í huga hv. þingmanns að reka ríkisháskóla eins og Tækniháskóli Íslands er með þessum öflugu tengslum við atvinnulífið og því að einkaaðilarnir þurfi að eiga skólann og reka hann fyrir hvaða fjármuni? Fyrir opinbert fé. Þó að þeir ætli að koma með eitthvert framlag á móti þá er hér fyrst og síðast um að ræða opinbert fé.