131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:24]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það virðast vera örlög okkar hv. 2. þm. Norðaust. að tala annar í suður og hinn í norður. Ég veit ekki af hverju það stafar. Ég var ekki að tala um tveggja manna tal, ég notaði líkingu og talaði um tveggja manna tafl. En af því að sá tónn var í orðum hv. þingmanns þá ætla ég að taka fram að ég stend fullkomlega og öll Samfylkingin að baki orðum hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar hér í dag.

Það sem hv. þingmaður sagði um rekstrarform Verslunarskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Viðskiptaháskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands var það að sjálfseignarformið væri staðnað. Hann sagði að leysa þyrfti hið staðnaða form úr viðjum með því að stofna úr því hlutafélag og gætir þess ekki að séreðli allra þessara skóla, nema Verslunarskóla Íslands í þessu tilviki, er það að hlutafélagsformið passar ákaflega illa við þá vegna þess að menn verða að búa við tiltekið frelsi í háskólum. Það er þannig, forseti sæll.