131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:29]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir ummæli hv. þingmanns um að rekstur Tækniháskólans hafi verið til skammar og ég átta mig ekki á því hvaðan hv. þingmaður hefur þær hugmyndir. Ég veit ekki betur en stjórn þess skóla hafi verið góð og tel síður en svo að skólinn og þeir sem þar starfa eigi þessa einkunn skilið.

Ég vil segja í sambandi við rekstrarformið að þeir sem koma að því að sameina skólana og leggja fram nýtt fé, 300 millj. kr., og vilja með öðrum hætti styrkja þá starfsemi sem þar er með mikilli djörfung, eins og fram kemur í viljayfirlýsingu þeirra, hafa talið að hlutafjárformið henti þeim vel.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson segist hafa meira vit á því en þeir sem eru í Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráðinu hvaða rekstrarform henti háskólanum vel. Nú verður við það að sitja að hv. þingmaður segist vita þetta betur en allir þeir menn sem að þessu komu. Á hinn bóginn finnst mér þetta lýsa afstöðu Samfylkingarinnar að mörgu leyti í ýmsum málum. Í hjarta sínu sjá þeir að vel er gert en þeir eiga erfitt með að ganga hreint til verks og samþykkja það sem vel er gert en eru þess vegna alltaf að segja: Það á að gera þetta pínulítið öðruvísi og örlítið öðruvísi og við viljum fá að ráða þessu og hinu og ef við fáum það ekki hljótum við að vera á móti málinu. Mér finnst þetta vera svolítið skrýtin afstaða.

Þetta liggur alveg ljóst fyrir, hv. þingmaður. Samtök atvinnulífsins hafa (Gripið fram í.) gefið út viljayfirlýsingu um stofnun einkahlutafélags sem taki við starfsemi Háskólans í (Forseti hringir.) Reykjavík og Tækniháskólans og um það snýst málið.