131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:03]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar kom það, það voru skólagjöld. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill ekki skólagjöld, þess vegna er ekki jafnrétti til náms. Ég vil bara minna hv. þingmann á það (Gripið fram í.) að helmingurinn af þeim skólagjöldum sem fæst lánað fyrir hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna er greiddur af ríkinu sem styrkur þannig að hún sé bara alveg klár á því. (KolH: Af hverju stillið þið ekki bara upp …?)

Auðvitað má segja það um allar stofnanir að þær fái ekki þá fjármuni sem til þarf. Hvenær er það? Auðvitað verða stofnanir að sníða sér stakk eftir vexti. En Tækniháskólinn hefur dafnað. Og nú hafa menn þessa valkosti, annaðhvort að fara í þennan nýja skóla eða Háskóla Íslands — eða fara utan eða fara í fjarnám erlendis. Möguleikarnir eru allt aðrir en þeir voru fyrir 20 árum, eða 30 árum þegar ég þekkti það, allt aðrir.

Ég bendi hv. þingmanni á það að menn geta núna stundað nám í háskóla í Englandi eða Bandaríkjunum, þurfa einungis kannski að fara tvær ferðir í þennan háskóla og tekið meistaragráðu þaðan.