131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:06]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningu minni var ekki svarað. Það er ekki kennd tæknifræði í Háskóla Íslands, tæknifræði er eingöngu kennd í Tækniháskóla Íslands. Hins vegar er kennd verkfræði í Háskóla Íslands og þar er ákveðin samkeppni en það er alls ekki sama nám. Menn mega ekki leggja þetta að jöfnu og það er slæmt ef formaður menntamálanefndar gerir það.

Það sem ég spurði hv. formann menntamálanefndar um er þetta: Stendur það til og tekur hann undir það að fjölga beri valkostum og þá sérstaklega í ríkisreknu skólunum? Tekur hann undir þetta og er þetta í einhverri vinnslu miðað við þessi orð og miðað við yfirlýsingar frá menntamálaráðuneytinu eins og þær eru túlkaðar? Er þetta í einhverri vinnslu eða komið á einhvern rekspöl og stendur þetta til?