131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:07]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á hvað er tæknifræði og verkfræði. Ég þykist kannski eitthvað vita hvað það er.

Það verður engin skilgreining sem slík á því eftir þetta. Í háskólasamfélaginu eru til nokkrar tegundir af þessu. Það eru til háskólar eða tækniháskólar og þeir kenna allir til gráðu sem er BS-gráða. Á það að vera BS-gráða í tæknifræði eða verkfræði, eða hverju? Í þessum nýja skóla verður þetta væntanlega BS-gráða í rafmagnsverkfræði eða rafmagnstæknifræði. Þetta verður allt mjög svipað.

Það sem á eftir að breytast hér í framtíðinni er, held ég, eins og ég sagði í fyrri minni ræðu, að það yrði t.d. möguleiki einhvern tíma seinna að auka tækninám í skólum eins og Iðnskólanum. Það yrði þó enn þá styttra en þetta og starfstengdara nám, eins og Finnar hafa gert með góðum árangri.