131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:18]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að spyrja um menntamálaráðherra sem stóð við sitt, sat hér og hlustaði á umræður í dag. Er hún í húsi? Hyggst hún taka þátt í umræðunni eða er hún farin til annarra skyldustarfa?

(Forseti (HBl): Menntamálaráðherra er í húsinu og ég hygg að hún fylgist með umræðum. Ég skal gera hæstv. ráðherra aðvart um að þess sé óskað að hún komi í salinn en ég á von á því að hún fylgist með umræðum.)

Ég þakka fyrir það, forseti. Auðvitað gefst tækifæri í 3. umr. til þess að bera upp þær spurningar við menntamálaráðherra sem gert hefur verið í þessari umræðu og reyndar líka hinni fyrstu án þess að almennileg svör hafi fengist.

Það verður að segja að þau svör hafa ekki komið frá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Gunnari Birgissyni, sem flytur að vísu ákaflega skemmtilegar ræður við og við á þinginu. En þær eru sem sé ekki að sama gagni gagnlegar og verða þess vegna ekki til að fleyta umræðunni mikið áfram í þessu máli eða öðrum. Það er spurning hvað á kalla það, hvort kalla eigi það tafir, málþóf eða annað að láta 2.500 nemendur bíða eftir geðþótta og skemmtilegheitum einstakra þingmanna.

Með fullri virðingu fyrir þeim tæknilegu spurningum sem hafa verið fram bornar um námsframboð, um afdrif frumgreinanemenda, starfsmanna o.s.frv., sem ég tel svona þokkalega tryggt eftir því sem hægt er við þessar aðstæður, þá held ég að við þurfum einkum svar við þremur spurningum, a.m.k. ég. Tvær þeirra er hægt að afgreiða í tiltölulega stuttu máli en sú þriðja er kannski aðeins lengra mál. Þess vegna er ég að vona að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hæstv. menntamálaráðherra, svari þeim hér. Ef ekki, þá við 3. umr.

Ég held að í þessu máli séu það einkum fjórir punktar — fyrir utan brýnar spurningar sem varða kannski skemmri tíma eins og ég nefndi áðan — fjögur atriði sem verður að athuga í þessu máli og kanna áður en samþykkt yrði að afhenda eigendum á einkamarkaði Tækniháskóla Íslands mestallan, steypa honum saman við annan skóla og gera úr því skóla sem yrði næststærsti háskóli á Íslandi, skóla með skólagjöldum og undir stjórn sem ekki er séð að verði skipuð skólamönnum og ekki fulltrúum almennings, þ.e. starfsmönnum eða fulltrúum menntamálaráðherra sem fer með framkvæmdarvaldið fyrir almenning í landinu, forseti. Það er þannig, eða ég vona a.m.k. að það sé þannig sem hæstv. menntamálaráðherra lítur á sig en ekki sem fulltrúa ópersónulegs og alltyfirgínandi ríkis. Ég hygg að það sé ekki skilningur núverandi menntamálaráðherra og vonandi ekki þeirra sem á eftir koma, t.d. hins ágæta verðandi menntamálaráðherra, hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Ég er reyndar viss um að það er ekki svo.

Ég held að fyrsta atriðið varði rekstrarformið. Ég talaði um það í rúman klukkutíma og kannski örfáum mínútum lengur og hélt að sá skilningur hefði þó komist í gegnum flesta kolla að ég var að tala um rekstrarformið, einkum í tengslum við akademískt frelsi. Hvaða rekstrarform tryggir best að ekki verði troðið á akademísku frelsi, ekki vegna þess að akademískt frelsi sé eitthvað sem liggur hér á altarinu frammi fyrir guði almáttugum í einhverjum trúarbrögðum heldur vegna þess að akademískt frelsi er sjálfur grunnur háskólastarfsins. Án akademísks frelsis er enginn háskóli. Það er þannig. Menn geta vissulega náð verulegum árangri í fagskólum af ýmsu tagi, í sérfræðinámi, í einstökum greinum, hvort sem það er tölvufræðsla, iðngreinar af einhverju tagi eða einhver annar lærdómur, án akademísks frelsis. Það er þá beint fagnám eða starfsnám. En því fylgir ekki það frelsi, þau skilyrði sem skapa háskóla. Þetta rakti ég nokkuð í fyrri ræðu minni og það gerðu reyndar fleiri hv. þingmenn við 2. umr. og reyndar líka í 1. umr.

Það er ekki bara, eins og rakið var í grein Runólfs Ágústssonar, bara fyrir háskólana, ekki bara fyrir kennarana eða nemendurna, sem akademískt frelsi er til, eða aðra starfsmenn eða rannsakendur. Slíkt frelsi á ekki að vera sérstök forréttindi þeirra eða kenjar í þeim að þeir þurfi þetta frelsi. Það er fyrir samfélagið allt vegna þess að samfélagið verður að geta treyst því að akademískt frelsi ríki í háskólunum til að þar verði framfarir og þar verði sú uppspretta og upphleðsla þekkingar sem á að vera í slíkum skólum. Þar fari fram rannsóknir sem séu frjálsar rannsóknir þótt auðvitað geti þær beinst að hagnýtum viðfangsefnum og flutningur þekkingarinnar milli kennara og nemenda, sem jafnframt er auðvitað ákveðin uppspretta þekkingar í þessari samræðu, sé engum háð, eða sem fæstum háð því frelsið er aldrei 100% og hægt að fara í langar heimspekisamræður og ýmsa kima í því efni eins og menn væntanlega þekkja.

Fulltrúar meiri hlutans, formaður menntamálanefndar, hv. þm. Gunnar I. Birgisson og aðrir hans menn, hafa ekki svarað spurningum okkar og röksemdum um akademískt frelsi og rekstrarformið. Þeir hafa ekki svarað greinum Runólfs Ágústssonar annars vegar og hins vegar umsögn Þorsteins Gunnarssonar, rektora Viðskiptaháskólans á Bifröst og Háskólans á Akureyri. Þeir afgreiða stjórnarandstöðuna sem óróamenn en í liðinu með okkur í þessu máli eru rektorar þessara tveggja skóla. Ekki orð við þá og þeir eru ekki virtir svars. Ekki ein setning í meirihlutaálitinu þótt auðvitað liggi greinar þeirra fyrir sem eins konar umsagnir um það frumvarp sem hér liggur frammi.

Gunnar I. Birgisson telur að einkahlutafélagsformið standi framar en sjálfseignarstofnunin. Það er ágætt og heiðarlegt að fá þá skoðun. Hann svaraði þessu til þegar ég spurði áðan, forseti, í andsvari hvað hann legði til með Listaháskóla Íslands, með Viðskiptaháskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík, sem enn er til þó það verði kannski ekki lengi. Ég bætti þarna inn í Verslunarskóla Íslands, prýðilegum framhaldsskóla þótt hann sé ekki akademískur, sem hefur verið rekinn í þessu formi líka. Svar hans var það að einkahlutafélagsformið væri almennt betra en sjálfseignarstofnunin. Hann hefur því að nokkru svarað spurningu minni og vill að þessir skólar, þrír eða fjórir, séu settir í það form. Það er athyglisverð yfirlýsing af hálfu formanns menntamálanefndar Alþingis Íslendinga, hv. þm. Gunnars Birgissonar.

Við höfum hins vegar talið að hlutafélagsformið eigi einkar illa við þá starfsemi sem hér er um að ræða. Hún er vissulega að nokkru leyti rekstur en hún er umfram allt annað en rekstur. Hún er umfram allt hið sérstaka starf sem felst í menntun, fræðslu og rannsóknum og lýtur öðrum lögmálum en rekstur á venjulegum markaði.

Til þess að leysa vanda sem upp kemur með starfsemi sem telst vera atvinnurekstur en er ekki af sama tagi og hinn klassíski atvinnurekstur skólabókanna á frjálsum markaði sem miðast við framboð og eftirspurn og það frumtakmark að skila eigendum sínum hagnaði hafa verið samþykkt sérstök lög á þessu þingi og öðrum þjóðþingum veraldarinnar, sjálfsagt ekki gjörvallrar en alls staðar þar sem við þekkjum til, sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var svo vinsamlegur að vekja athygli á áðan og ég hef reyndar gert áður, þ.e. lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri. Þegar litið er yfir þau sér maður ekki, og ekki hafa verið færð að því rök, hvað vanti í þau lög til þess að geta rekið háskólastarfsemi á þeim grunni, sem er langeðlilegast. Það hefur ekki komið í ljós.

Gunnar I. Birgisson sagði í fyrri ræðu sinni, sem var svona nokkurn veginn eins og hin síðari, að það væri einkum þrennt í þessu máli sem gerði það að verkum að sjálfseignarstofnunarformið væri síðra en einkahlutafélagsformið. Í fyrsta lagi væri um að ræða þrjá aðila og auðveldara væri fyrir þá að stofna hlutafélag en að koma sér saman um fulltrúaráð í sjálfseignarstofnun. Þetta eru auðvitað ákaflega léttvæg rök því að það má búa til stofnskrá sjálfseignarstofnunar með þeim hætti að þessir aðilar hafi sitt pláss og orðið geti breytingar á fulltrúaráðinu ef aðilarnir breytast. En í sjálfseignarstofnun eru auðvitað skýr skil á milli eigenda og fulltrúanna, eða aðstandendanna skulu við segja í þessu tilviki. Við þekkjum þetta form. Hvaðan þekkjum við það? Jú, við þekkjum það ágætlega úr sjálfseignarstofnun sem Verslunarráð Íslands rekur nú eða stofnaði og stendur á bak við núna og sér um rekstur á, þ.e. Háskólanum í Reykjavík og Verslunarskóla Íslands.

Í öðru lagi taldi hv. þm. Gunnar I. Birgisson það sérstakan kost að betri tengsl væru við eigendur í einkahlutafélagi eða hlutafélagi en í sjálfseignarstofnun. Það er alveg rétt. Það getur komið að ýmsu gagni eins og ég rakti hér í fyrri ræðu og tók þar undir nokkuð af því sem Guðfinna Bjarnadóttir sagði, enda er hún hinn merkasti skólamaður og engin ástæða til að við förum að ræða um hana eins og hv. þm. Gunnar I. Birgisson reyndi að egna okkur til, þótt mér finnist ekki allt í hennar plaggi vera burðugt. Þessi tengsl við eigendur eru líka galli um leið og þau eru kostur. Þegar um háskólastarfsemi er að ræða er ekki heppilegt að tengslin við eigendur eða aðstandendur séu of mikil og einkum þegar um er að ræða samtök eins og þau sem við horfum framan í núna, annars vegar Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins sem eru minnihlutahluthafar í þessu dæmi, með undir 10%, og hins vegar Verslunarráð Íslands, sem eru pólitísk samtök atvinnurekenda á Íslandi, stunda lobbíisma gagnvart þingmönnum, gagnvart sveitarstjórnum og gagnvart almenningi, hafa oftast nýlíberalíska stefnu í efnahagsmálum, hafa skipt sér af velferðarmálum, skólamálum, skattamálum o.s.frv., en hins vegar rekið skóla sína ágætlega í gegnum sjálfseignarstofnunina. Sérstaklega í þessu tilviki verður að krefjast þess að tengsl við eigendur séu þannig útbúin að háskólanum og hinu akademíska frelsi stafi engin hætta af.

Í þriðja lagi sagði hv. þm. Gunnar Birgisson að hlutafélagsformið, og það var þriðja og síðasta röksemdin hjá hv. þingmanni, hefði það fram yfir sjálfseignarstofnunina að auðveldara væri að slíta félaginu eða apparatinu. Það er auðvitað rétt. Það er sjálfsagt auðveldara að slíta því. Það þarf ekki mikið til að slíta hlutafélagi og minna en að slíta sjálfseignarstofnun. En einkum skildist mér á hv. þm. Gunnari Birgissyni að kosturinn við þetta væri að féð gæti aftur runnið til hluthafanna í hlutafélagi en ekki í sjálfseignarstofnun vegna þess að þar ætti féð, og er áskilið að ég hygg í þeim lögum sem ég nefndi áðan, að renna til svipaðs markmiðs eða málefnis og sjálfseignarstofnunin snýst um. Þetta er rétt.

Hv. þm. Gunnar Birgisson er með þessu að segja að engin alvara sé á bak við hlutaféð sem Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnurekenda og Verslunarráð Íslands ætla að reiða fram, að allar þær milljónir sem nú eru inni og þær sem eiga að bætast við séu fram bornar á einhverjum þeim rökum og einhverjum þeim hagsmunum að aðilarnir mundu ekki láta það renna til svipað málefnis ef svo færi að skólinn dytti upp fyrir af einhverjum ástæðum, sem ég vona að ekki verði ef hann kemst á, að þeir mundu ekki vilja það heldur mundu þeir vilja fá peningana sína aftur.

Þetta stangast mjög á við þann skilning sem við höfum haft um markmið og tilgang þessara þrennra samtaka með stofnun skólans. Ég hef lýst Verslunarráði eins og það kemur mér fyrir sjónir og Verslunarráðið verður bara að sætta sig við það. Samtök atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins þekki ég auðvitað af ýmsu góðu. Þau eru máttarstólpar í samfélaginu um ýmsa hluti.

Ég verð að segja að grundvöllurinn í málinu er að ég treysti þeim, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði áðan, til að reka skólastofnanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, á ákveðnum forsendum. Það virðist hv. þm. Gunnar Birgisson ekki gera vegna þess að hann telur að þessir þrír aðilar þurfi að hafa tryggingu fyrir því að fá fé sitt aftur. Þetta eru ekki féleg rök. Þetta eru í raun engin rök. Þeir hafa heldur ekki svarað, Gunnar Birgisson, Sigurður Kári Kristjánsson og aðrir hv. þingmenn einkum Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað, einu orði þeim rökum með sjálfseignarstofnunum, jafnvel á kostnað ríkisháskóla, og á móti hlutafélögum við rekstur háskóla sem koma fram í grein Runólfs Ágústssonar og umsögn Þorsteins Gunnarssonar, þeir hafa ekkert lagt til fyrsta atriðsins af fjórum sem ég er að reifa.

Svar okkar samfylkingarmanna hefur verið, eins og kunnugt er úr umræðunum í dag, að leggja fram sérstaka tillögu um breytingu á háskólalögunum þar sem háskólum sem einkaaðilar stofna er gert að vera sjálfseignarstofnanir eins og fram kom í ágætri, hvassri og snarpri ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og hugsanlegs verðandi menntamálaráðherra.

Annar punktur sem ég vil draga fram í lok umræðunnar, a.m.k. hvað mig varðar, er að þegar svo háttar til eins og hér er að þessi einkarekstur eða sjálfstæði rekstur, ekki einkarekstur í þeim skilningi að hér sé um fullkomna einkaaðila að ræða enda vitum við að það á að reka þetta í samvinnu við ríkið og það leggur til féð samkvæmt ákveðnum samningi, — þegar um slíkan rekstur er að ræða og sérstaklega þegar um er að ræða þá eigendur eða aðstandendur sem raun ber vitni er mjög mikilvægt að reyna með einhverjum hætti að tryggja í fyrsta lagi akademískt frelsi og í öðru lagi hagsmuni kennara, starfsmanna, rannsakenda og nemenda með því að búa svo um hnúta að þeir eigi þátt í stjórnun skólans.

Hvernig skyldi löggjafinn, Alþingi, sem á sínum tíma samþykkti háskólalög, hafa gengið frá þeim málum? Jú, hann gerði það með því að í 4. kafla, sem varðar að vísu ríkisháskóla eingöngu, eru ströng ákvæði um þátttökuna. Þar er mælt fyrir um það af smásmugulegri nákvæmni, allt of mikilli að mínu mati, hvernig háskólaráð eigi að skipa og hver skuli vera áhrif í fyrsta lagi ráðherrans, sem var umdeilt á sínum tíma og er enn, og í öðru lagi starfsmanna, kennara og nemenda. Ég hef rakið það tvisvar sinnum áður hvernig þessu er háttað í sjálfseignarstofnuninni sem rekur Viðskiptaháskólann á Bifröst.

Í þessu dæmi þar sem hefði verið mjög mikilvægt að hafa þetta á hreinu hafa engin svör borist um þátttöku nemenda, kennara, starfsmanna og rannsakenda í stjórnun skólans. Það er klárt að háskólaráð er skipað þeim mönnum sem það er skipað, stjórn einkahlutafélagsins. Þar er enginn maður úr skólastarfinu. Þar eru mætir menn, forustumenn í fyrirtækjum flestir og einn hygg ég í sveitarstjórn ekki fjarri vettvangi.

Sagt er frá því í plöggum sem hér hefur oft verið vitnað til, þeim sem koma frá aðstandendum skólans, að jafnframt háskólaráðinu starfi einhvers konar framkvæmdastjórn í skólanum. Í henni sitji framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins sem einnig gegnir nafninu rektor og að með honum sitji að ég hygg þrír eða fjórir aðrir deildarstjórar og framkvæmdastjórar sviða sem rektorinn eða framkvæmdastjóri skólans ræður. Hann situr því þar og ráðgast við eigin starfsmenn og undirmenn. Það getur verið ágætt, en það uppfyllir alls ekki þær kröfur sem ríkið gerir skólum sínum að uppfylla, þær að nemendur og kennarar hafi þar einhver áhrif.

Hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður menntamálanefndar, var vakandi fyrir þessu og svaraði að þeir hefðu svo sannarlega tekið eftir þessu í meiri hluta menntamálanefndar. Það gerðu þeir vissulega, vegna þess að þar koma fram verulegar áhyggjur af þessu og verður að segjast meiri hluta menntamálanefndar til hróss. Meiri hlutinn tekur upp í áliti sínu spurningar frá okkur stjórnarandstæðingum í menntamálanefnd og þar segir, með leyfi forseta:

„Spurt var um setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í háskólaráði.“ Síðan kemur nokkuð löng klausa um að tryggja eigi ráðgjöf og því hafi verið lofað að háskólaráðið gæti fengið starfsmenn og nemendur til ráðgjafar eftir því sem við eigi hverju sinni, þ.e. þegar því líkar, ekki þegar nemendum og starfsmönnum líkar. Síðan kemur hin snjalla setning frá meiri hluta menntamálanefndar, hv. þm. Gunnari Birgissyni og félögum, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn leggur áherslu á að eðlileg þátttaka starfsmanna og nemenda í stjórn skólans verði tryggð og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur.“

Meiri hlutinn leggur áherslu á þetta, en hefur hann einhverja tryggingu fyrir því að þetta verði? Er einhver yfirlýsing frá aðstandendum skólans um að hann ætli að taka mark á meiri hlutanum? Hefur menntamálaráðherra einhverjar upplýsingar um hvernig þessu verður háttað?

Það hringdi í mig maður sem er tengdur hinum nýja skóla sem á að stofna, kunningi minn reyndar einnig, og ræddi við mig um þessi mál og hafði áhyggjur af því að þetta gengi seint í þinginu. Ég benti honum á að það mál ætti kannski einkum að ræða við hæstv. menntamálaráðherra sem þá var fjarverandi úr þinginu í mikilvægum skyldustörfum og undirbjó málið með þeim hætti að það þurfti að leggjast mjög yfir það, bæði í nefndinni og í umræðunum. Ég bað hann sérstaklega að rannsaka hvort þetta lægi fyrir hjá aðstandendum skólans. Ég hef ekki fengið svör frá honum, því miður, þó ég hafi reynt að ná í hann í dag þannig að að því er að mér snýr eru engin svör við þessu.

Meiri hlutinn hefur enga tryggingu fyrir einu eða neinu. Meiri hlutinn hefur ekki getað svarað því í umræðunni eða ekki treyst sér til þess hver sá eðlilegi farvegur er sem þeim samskiptum á að finna. Meiri hlutinn gefst upp, fórnar höndum og lýsir áhyggjum sínum en gengur ekki frá málinu þannig að neitt vit sé í. Það er því ekki meiri hluta menntamálanefndar að þakka ef málið kemst í lag. Hann hleypur frá málinu þannig að það er bara góðum vilja aðstandendanna einum að þakka ef eitthvað verður í þessu og alveg óljóst að það verði.

Þetta er mjög mikilvægt mál og eitt af því sem skapar okkur samfylkingarmönnum þá stöðu að við gagnrýnum frumvarpið eins og það er fram sett og þann bakgrunn sem það hefur.

Í þriðja lagi er við skipunina að athuga, auðvitað ekki frumvarpið sem er ein eða tvær setningar, að þegar allt er komið í kring í málinu verður hluti af því sem áður var opinbert menntaframboð á Íslandi, þ.e. tæknifræðinámið, eingöngu í boði í skólagjaldaskóla sem rekinn er af einkahlutafélagi. Hæstv. menntamálaráðherra hefur þó afrekað að taka námið út úr opinberu framboði menntunar sem menn fá án sérstaks endurgjalds. Auðvitað kostar hádegisverðurinn sitt og það gerir nám líka. Menn borga námið aðallega seinna á ævinni með sköttum og skyldum, ef ekki verður búið að lækka skattana svo niður úr öllu valdi að allir skólar séu sveltir. Hæstv. menntamálaráðherra hefur fært þetta í einn skóla og sá skóli er þannig að hann er rekinn af einkahlutafélagi og menn verða að fara að borga skólagjöld.

Við í Samfylkingunni og stjórnarandstæðingar hygg ég allir höfum lagt áherslu á að ef þetta verður verði svo búið um hnúta að tæknifræðinámið sé í boði á Íslandi í opinberum skóla eða sjálfseignarskóla þar sem ekki þarf að greiða skólagjöld. Það var einmitt sú setning sem hv. þm. Gunnar Birgisson skemmti sér sem mest yfir áðan, og vakti furðu mína að hann skyldi gera það, og talaði um að við vildum fjölga skólum af því að við töluðum um að ein leiðin væri sú að koma tæknifræðinámi í Háskóla Íslands þar sem fyrir er verkfræðinám.

Vill svo til, forseti, að við stöndum ekki alveg ein í þessu aumingjarnir í Samfylkingunni og fulltrúar hennar í menntamálanefnd, heldur kom í ljós í fyrri hluta 2. umr. á þriðjudaginn var að hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar og fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni og þar með talsmaður hans í menntamálum, vill þetta líka. Hún sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Ég er þeirrar skoðunar að skoða beri kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum. Mér finnst að þetta ætti að geta gengið fljótlega, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga menntamálaráðuneytisins. Mér finnst brýnt að slíkt nám sé einnig í boði í ríkisreknum háskóla, enda er samkeppni um framboð greina eitt af því besta sem hefur hent margar greinar sem ekki bjuggu við samkeppni áður.“

Hún vitnar sérstaklega í yfirlýsingu menntamálaráðuneytisins og segir að þar komi fram, með leyfi forseta:

„Að stefnt sé að því að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.“

Þessi yfirlýsing hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur vekur auðvitað mikla athygli vegna þess að þarna er um skilyrði Framsóknarflokksins að ræða við stuðning sinn við menntamálaráðherra í málinu. Þetta kemur enn þá skýrar í ljós í andsvari hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur í lok umræðunnar. Þar sagði hún þetta, með leyfi forseta:

„Ég sagði hér að það ætti að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum. Þetta er fullkomlega í samræmi við yfirlýsingu frá menntamálaráðuneytinu sem hv. menntamálanefnd barst og þar stendur í niðurlagi þeirrar yfirlýsingar, með leyfi forseta: „Er að því stefnt að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.““

Þessi yfirlýsing frá menntamálaráðuneytinu er ekki frá menntamálaráðherra heldur frá starfsmönnum hans. „F.h.r.“ stendur í lok bréfsins sem sumir túlka sem „fyrir hönd ráðuneytisins“ en eðlilegra er að túlka sem „fyrir hönd ráðherra“. Þessi yfirlýsing er hér komin í allt annað ljós en mátti lesa úr henni á frumstigi. Á þessu vakti hv. þingmaður Einar Már Sigurðarson athygli hér fyrr í dag og spurði menntamálaráðherra hvort þetta væri svona, hvort það væri þannig að yfirlýsing Guðmundar Árnasonar og Sólrúnar Jensdóttur f.h.r. væri þannig að nú gætu ríkisháskólarnir ósköp einfaldlega sent bréf, látið vita upp í menntamálaráðuneyti að þeir væru tilbúnir til að taka að sér tæknifræði á næsta skólaári eða einhverjum næstu missirum og þá væri fyrir hendi loforð hæstv. menntamálaráðherra í gegnum Guðmund Árnason og Sólrúnu Jensdóttur um að svo mundi vera.

Ég verð að segja, forseti, að ef þetta er svona þá mundi það færa okkur samfylkingarmenn einu skrefi nær stuðningi við þetta mál því þetta er eitt af því sem við höfum lagt mikla áherslu á, þ.e. að ekki verði skert það opinbera námsframboð sem menn geta gengið að án verulegra skólagjalda, annarra en þeirra sem felast í skráningargjaldinu sem hæstv. menntamálaráðherra stóð fyrir að hækkaði um daginn og ég ætla ekki að ræða frekar. Ef þetta væri þá gætum við stigið eitt skref í viðbót til stuðnings við þetta mál og þann skóla sem ég vona að eigi eftir að gera hér mikið gagn á næstu árum.

Yfirlýsingin, forseti, er hins vegar svona í seinni hluta sínum. Hún er þannig að menntamálaráðuneytið segir að stofnað sé til hins sameinaða skóla, með leyfi forseta:

„... í því markmiði“ — nú kemur fallegur texti. Ég bið menn að lygna aftur augunum — „að auka áhuga ungs fólks á raunvísindum og tæknigreinum og tryggja að gæði menntunar á þeim sviðum standist alþjóðlegan samanburð. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að boðið verði upp á nám í þeim greinum sem skólarnir hafa boðið, bæði á grunnstigi til BA- og BS-prófs og á framhaldsstigi.“ Svo kemur þessi setning í lokin:

„Er að því stefnt að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.“

Venjulegur maður með greindarvísitöluna 90 eða þar fyrir neðan, sem allir aðrir hafa en hv. þm. Pétur Blöndal hér í þinginu og í samfélaginu meira og minna, skilur þetta þannig að að því sé stefnt að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum í þessum nýja skóla, sérstaklega í ljósi þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar um það að hugsanlegt sé að framboð tæknigreinanna verði ekki eflt heldur verði þvert á móti þrengt eins og fram kom í ræðu Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem ég hef nú ekki að vísu sérstaklega kynnt mér en man eftir að á sér stoð í ákveðnum textum sem fram komu til okkar frá tæknifræðingum og verkfræðingum. Við skulum vona að það verði ekki. En svona skilur maður þetta sem sé, einfaldur venjulegur Íslendingur, fimmtugur karlmaður með meðalgreind, þ.e. að stefnt sé að því að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið í þessum nýja skóla. En ef það er hinsegin þá bið ég hæstv. menntamálaráðherra að segja okkur það og lýsa því yfir að það sé þannig að ríkisháskólarnir, opinberu háskólarnir og kannski aðrir líka, geti á næstu önn eða önnum fengið stuðning menntamálaráðuneytisins til þess að koma upp námi í tæknigreinum sem þar með verði í samkeppni við tæknigreinanámið í hinum nýja skóla. Þetta er þriðja atriðið.

Ég vil svo segja um fjórða atriðið — það hefur auðvitað komið hér fram, m.a. í ágætri ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur — fjórða atriðið sem maður staldrar við í þessu máli öllu saman er heildarstefnumótunin, það hvernig hæstv. menntamálaráðherra og sá meiri hluti sem hann styður í menntamálanefnd, hvernig þau telja að þetta eigi að líta út eftir, ja segjum þrjú ár, segjum fimm eða tíu, ef maður leyfir sér að hugsa svo langt fram í tímann. Þá verður að vísu hæstv. menntamálaráðherra hættur að vera menntamálaráðherra. En eftir verða væntanlega hennar verk og þau skref sem hún hefur stigið í einhverjar áttir og annaðhvort þarf að hjálpa með lengra eða reyna að vinna á móti. Hver er heildarhugsun hennar? Það hefur komið fram að sá háskóli sem út úr þessu kemur, THÍ/HR-skólinn sem svo mætti kalla, eða Verslunarráðsskólinn eins og ég hef leyft mér að kalla hann með ofurlitlu brosi á vör, verður næststærsti háskóli á Íslandi með 2.400–2.500 nemendur til að byrja með. Við skulum segja að hann verði sjálfstætt starfandi og gera ráð fyrir því að enn komi til greina að hann breytist í sjálfseignarstofnun eða þá hann geri það í ljósi þess að ekki er sátt um hlutafélagaformið eins og fram kom hjá hv. þingmanni Einari Má Sigurðarsyni. Hann tekur skólagjöld og hann átti, með orðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að skapa hið mikilvæga mótvægi við Háskóla Íslands. Er það þá hugmynd hæstv. menntamálaráðherra og hennar manna í menntamálaráðuneytinu og í meiri hluta menntamálanefndar að það verði þannig að annars vegar verði Háskóli Íslands og kannski Háskóli Akureyrar, opinberir háskólar sem taki ekki skólagjöld en hafi sína samninga við menntamálaráðuneytið, og hins vegar þessi nýi skóli sem auk fjárins sem hann fær frá menntamálaráðuneytinu og stuðnings væntanlega eigendanna sem ætla að standa vel að málum, fái svo sérstök skólagjöld? Er það svo? Eiga þessir skólar síðan, þessar heildir tvær, svo að standa í samkeppni sín á milli? Hver er þá samkeppnisstaða Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar? Er það meiningin, forseti, hjá hæstv. menntamálaráðherra og mönnum hennar að þetta sé í raun bara eitt skref í viðbót sem Framsóknarflokkurinn er togaður út í, flokkur sem hefur það á stefnuskrá sinni að vera á móti skólagjöldum í háskóla, þannig að hann eigi að leiða eitt og eitt skref, blindan, haltan og heyrnarlausan, þangað til allt verði orðið eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill, skólagjöld á öllum stigum, ekki bara í háskóla heldur frá leikskóla og upp úr, af einhverjum ástæðum. Getur hæstv. menntamálaráðherra ekki svarað þessu og veitt okkur hlutdeild í framtíðarsýn sinni á þessu sviði?

Hæstv. menntamálaráðherra flytur hér ákaflega fagrar og skemmtilegar ræður um hvað allt sé gott í menntamálum á Íslandi. Það er meira að segja þannig að hæstv. menntamálaráðherra er nú farinn að hafa sefjandi áhrif á félaga sinn, hv. 3. þm. Suðvesturkjördæmis, sama kjördæmis og hæstv. menntamálaráðherra stendur fyrir, Gunnar Birgisson. Hv. þm. Gunnar Birgisson er farinn að flytja þessar sömu ræður, að vísu í aðeins annarri tóntegund og með sínum hætti, ef þannig má orða það. Þetta eru skemmtilegar ræður en hvernig á þetta að verða eftir fimm og tíu ár? Hvernig á háskólaumhverfið að verða? Hvernig á samkeppnisstaðan að verða? Að hverju eiga þeir nemendur að ganga sem nú eru að byrja í framhaldsskóla þegar þeir komast á háskólastig? Þennan grundvöll vantar algjörlega í greinargerð, í nefndarálit, í texta frá aðstandendum, í greinum og ræðum menntamálaráðherra út og suður um þetta efni. Engin greinargerð er um það.

Það er eins og hæstv. menntamálaráðherra viti annaðhvort ekki hvað hún er að gjöra — í helgri bók er það haft eftir ágætum manni að þeim eigi maður að fyrirgefa sem vita ekki hvað þeir gjöra — eða þá að hún er með einhverjum hætti að leiða menn til nýrrar framtíðar nánast án þess að þeir hinir sömu geri sér grein fyrir því. Þó auðvitað megi segja að það sé ágæt samstarfsaðferð við Framsóknarflokkinn þá er það ekki fullkomlega heiðarlegt við nemendur, kennara, og almenning á Íslandi, að ég tali nú ekki um okkur garmana sem stöndum utan stjórnarinnar hér á þinginu.

Að lokum, forseti, óska ég eftir svörum frá hæstv. menntamálaráðherra um eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi: Hvernig verður háttað þátttöku nemenda og kennara í háskólaráði?

Í öðru lagi: Hvað þýðir yfirlýsing Guðmundar Árnasonar og Sólrúnar Jensdóttur f.h.r. um aukið framboð tæknináms?

Í þriðja lagi: Hver er stefnusýn hæstv. menntamálaráðherra einkum hvað varðar háskólaumhverfið hér eftir fimm til tíu ár þegar þessi nýi skóli verður, vonandi sem sjálfseignarstofnun en sennilega sem einkahlutafélag, í rekstri með skólagjöldum í samkeppni — a.m.k. ef marka má orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar — við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri?