131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:59]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns byrja á að þakka hv. menntamálanefnd og nefndarmönnum fyrir greinilega gott og yfirgripsmikið starf varðandi þetta mikilvæga mál sem skiptir allt háskólasamfélagið mjög miklu máli og er eitt af þeim merkilegu skrefum sem við erum að stíga fram á við í þeirri menntasókn sem við höfum staðið fyrir á undanförnum árum í menntakerfi okkar hér á landi.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni í dag og því sem fram hefur komið. Það er ljóst að það er greinilega mismikill skilningur á því hversu mikilvægt þetta mál er. Eins og ég gat um áðan er þetta eitt mesta framfaraskref sem við höfum tekið á síðari árum varðandi það að halda áfram menntasókninni. Síðan er hitt að auðvitað hefur margt athyglisvert komið hér fram. Í rauninni er ein meginlína og hún er sú að stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig er á móti málinu á mismunandi hátt, en hún er á móti málinu. Það er nokkurn veginn það sem komið hefur út úr umræðunni í dag.

Það hefur verið heldur hjákátlegt að fylgjast með ýmsum tilraunum til þess að reyna að finna einhvern flöt á málinu til að komast inn í það aftur, en það tekst ekki. Stjórnarandstaðan öll eins og hún leggur sig er á móti málinu, á mismunandi forsendum eins og ég gat um en hún er á móti málinu. Mér finnst sorglegt að svo skuli vera og að því leytinu til er það kannski ekki rétt sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að tilkynningin sem send var út á sínum tíma um mikla samstöðu stjórnarandstöðunnar birtist reyndar ekki alveg í þessu máli eins og ég gat um áðan af því að forsendurnar eru mismunandi. Þó er það þannig að stjórnarandstaðan er á móti og Samfylkingin virðist ætla að fara í sama gírinn og Vinstri grænir, þ.e. að vera á móti öllum málum.

Það var komið inn á eitt og annað sem ég ætla að reyna að fara yfir og svara eftir föngum. Til dæmis bréf sem sent var frá menntamálaráðuneytinu og hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom inn á. Það er það hálmstrá sem ég talaði um að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni væru að reyna að fela sig á bak við en stráið er afar mjúkt og þunnt. Það er að ef aðrir háskólar, þ.e. helst ríkisháskólar, færu fram á það við ráðuneytið að fara af stað með tækninám, þá fyrst væru þeir tilbúnir til að ljá máls á því máli sem er hér til umræðu. (Gripið fram í.) Hvers konar vitleysa er þetta? Nú eru hv. þingmenn búnir að fá tækifæri til þess að koma í ræðustól og þá skulu þeir bara sitja núna og hlusta eins og fleiri hafa gert.

Síðan kemur að því sem er svo sérstakt að menn átta sig ekki á hvernig þetta gengur fyrir sig. Ég hélt þó að menn væru tiltölulega vel upplýstir í háskólaumræðunni og mér hefur oft og tíðum fundist það þó að ég sé ekki alltaf sammála þeim málflutningi sem viðhafður er, en menn eru samt nokkuð upplýstir. Ég get því haldið áfram að reyna að upplýsa menn í þá veru að það stendur í rauninni ekkert í vegi fyrir því að háskólarnir komi fram með sitt námsframboð eins og þeir hafa gert en við vitum hvað það er sem gildir og það eru auðvitað fjárlögin og sá rammi sem háskólum er búinn hverju sinni. Við höfum hingað til ekki staðið í vegi fyrir því þegar hinir ýmsu háskólar, ríkisháskólar sem aðrir, hafa lagt af stað með nýtt námsframboð svo lengi sem það rúmast innan þess ramma sem háskólarnir hafa hverju sinni. Svo einfalt er það. Síðan er þetta tekið fram í kennslusamningum og öðrum samningum sem eru á milli ráðuneytis og háskóla og menn vinna eftir þeim reglum sem eru öllum skýrar og ljósar.

Hv. þingmenn hafa m.a. rætt um nemendur í háskólaráði. Það er ljóst að búið er að fara gaumgæfilega yfir það af hv. formanni menntamálanefndar og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni hvernig þeim málum öllum er hagað varðandi þetta rekstrarfyrirkomulag. Það sem mér finnst þó einkenna málflutning stjórnarandstöðunnar í garð þessa rekstrarfyrirkomulags er auðvitað fyrst og fremst sú lítilsvirðing og það litla traust sem stjórnarandstaðan ber til þeirra einstaklinga sem er í forsvari fyrir hinn nýja skóla, mikið skólafólk en hefur ekki stimpil upp á að starfa hjá ríkisstofnun. Það er eins og það fólk fái ekki að njóta sannmælis af því það starfar ekki hjá ríkisstofnun.

Mér finnst miður að hlusta á þennan málflutning hjá stjórnarandstöðunni og hversu lítið traust hún ber til þeirra stjórnenda sem nú þegar hafa sýnt af sér mikla fyrirhyggju, mikla framsýni varðandi stefnumörkun í háskólamálum. Það sem kristallar þessa umræðu alla er alltaf þetta litla traust, af því að menn bera ekki traust til þeirra einstaklinga sem koma til með að standa með öflugum hætti að þessum nýja háskóla.

Síðan hafa menn líka rætt um að það hefði þurft lengri tíma og að vanda betur til verka. Ég stend föst á því að það hafi verið vandað vel til verka varðandi allan undirbúning að þessu máli. Menn voru afar vel upplýstir í alla staði og það er alveg ljóst að það var mikill einhugur á meðal forráðamanna beggja skólanna þegar ég fór fram á það við þá að þetta yrði skoðað, sérstaklega með það í huga að báðir skólarnir hefðu sýnt mikinn metnað í þá veru að fjölga hjá sér stúdentum í tækninámi og verkfræði. Áherslur þeirra voru mjög svipaðar. Það var því hendi næst að skoða hvort það færi þá ekki saman að þessir skólar ynnu meira saman og hugsanlega sameinuðust, sem verður raunin.

Menn hafa talað um að núna fari þetta nám undir einkaskóla og þá verði jöfnum tækifærum til náms ógnað. Það er náttúrlega algjör firra og við höfum dæmi þess að svo hefur ekki orðið í þeim greinum þar sem tekin hafa verið upp skólagjöld. Í hvaða greinum er það? Eru menn að segja að það sé ekki jafnrétti til náms í listnámi hér á landi. Hver eru skólagjöldin í hinum frábæra Listaháskóla Íslands? Þau eru rúmlega 160 þús. kr. Er eitthvert ójafnrétti til náms hér í listnámi? Ég held nú ekki. Svo koma menn í þennan ágæta ræðustól og reyna að halda öðru fram.

Það er hins vegar ágætt að það sé komið í þingtíðindin sjálf að stjórnarandstaðan skuli vera á móti þessu máli. Það verða hugsanlega eftirmæli hennar þegar fram í sækir að hún hafi verið á móti framförum í háskólasamfélaginu, á móti þessum nýja háskóla sem kemur til með að leiða okkur enn frekar til öflugrar sóknar í alþjóðasamfélaginu, til þess að efla okkur á alla lund. Við sjáum það og það er engin tilviljun að menn eru að tala hér um stefnu. Það er engin tilviljun þegar við erum að fá jákvæðar niðurstöður, til að mynda úr skýrslum OECD þar sem við erum að ... (MÁ: Áfram FH.) Áfram FH. Það er gott að menn sjá ljós hér í ákveðnum málum.

Síðan er rétt að undirstrika það að við erum í fremstu röð á mörgum sviðum, t.d. þegar kemur að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Slíkt hefði ekki náðst nema fyrir þær sakir að við höfum verið að styrkja vísindasamfélagið og styrkja háskólasamfélagið, styrkja allt skólasamfélagið sem eina heild. Það er líka gott að sjá að við Íslendingar erum að efla fjármagn í hvað hröðustum mæli af þeim þjóðum sem við miðum okkur almennt við, til háskólastigsins og í rauninni til alls menntakerfisins í heild þar sem við erum í forustu. Auðvitað eru þetta jákvæðir þættir sem er ekkert hægt að líta fram hjá. Menn verða einfaldlega að skoða málin út frá heildinni en ekki reyna að pikka út einhverja einstaka þætti.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist m.a. á að við hefðum í rauninni með þessu verið að reyna, eins og hv. þingmaður orðar það, með leyfi forseta „að svelta ríkisstofnun inn í einkavæðingu“. Það er ekki svo. Þetta er náttúrlega í fyrsta lagi afar ósmekklegt og enn og aftur er þetta það sem ég kom inn á áðan, þetta vantraust sem verið er að sýna skólastjórnendum þeirra skóla sem um ræðir því að sjálfsögðu var haft samráð við skólastjórnendur. Þetta var ekki valdboð eins og menn eru að tala um. Það var farið í viðræður og menn voru á einu máli um að það ætti að sameina þessa skóla, menn sæju mikinn hag í því að báðir skólarnir í einum skóla yrðu mjög öflugir. Ég kem að því síðar, t.d. varðandi tækninámið sem menn eru eitthvað að efast um að verði öflugra í þessum skóla og mér finnst það miður að menn séu að efast um þann þátt því hvað það varðar þá veit ég og hef upplýsingar um það að á sínum tíma var kennsla í tæknifræði í Tækniháskólanum. Hún hefur verið, eins og hv. þingmenn vita, í byggingatæknifræði, iðnaðartæknifræði, rafmagnstæknifræði, tölvu- og upplýsingatæknifræði og véltæknifræði. Til þess að efla námið í tæknifræði innan hins nýja skóla hefur sú leið verið farin í að skilgreina tæknifræðina á þremur námsbrautum, þ.e. í byggingatæknifræði, rafmagnstæknifræði og véltæknifræði. Samtímis er valfrelsi í rafmagnstæknifræði aukið þannig að nemendur velja eina af þremur línum, sterkstraumslínu, veikstraumslínu og tölvulínu. Tölvulínan má í rauninni segja að sé síðan efnislega jafngild tölvu- og upplýsingatæknifræði. Ég sé það á öllum fyrirætlunum forsvarsmanna hins nýja skóla að það er mikill metnaður uppi um að efla tækninámið enn frekar. Við höfum staðfestingu á því.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og fleiri í stjórnarandstöðunni hafa komið inn á það að ekki væri gott að ríkið væri að fara í samkeppni gegn sjálfu sér en í rauninni er verið að segja að það eigi ekki að setja fjármagn til þeirra skóla sem við köllum einkaháskóla. Þar erum við komin að kjarna þess sem má í rauninni kalla stefnu í háskólamálum eða hluta af stefnu í háskólamálum. Því ef sú stefna hefði ríkt sem stjórnarandstaðan hefði viljað fara og sú leið farin sem hún hefði viljað feta væri ekki valfrelsi í háskólamálum, þá væri ekki sú fjölbreytni í háskólasamfélaginu sem við búum við hér í dag. Þetta eru staðreyndir sem allir vita.

Síðan spyr hv. þm. Mörður Árnason hvernig háskólaumhverfið komi til með að líta út eftir tíu ár. Það er a.m.k. ljóst að eftir tíu ár, ef Samfylkingin hefði ráðið, værum við enn að tala um aðeins einn háskóla sem val fyrir framhaldsskólanema sem eru að útskrifast úr framhaldsskólunum. Það er alveg á hreinu og þetta vita allir.

Síðan er kannski ekki von á öðru þegar hv. þingmenn eru að ræða um þessi atriði, sérstaklega þegar horft er upp á þá alvarlegu hluti sem eru að gerast í skólamálum í Reykjavík varðandi einkaskólana, sem eru náttúrlega hluti af ákveðinni menningararfleifð út af fyrir sig. Þar er eins og við vitum einmitt verið að fara þá leið sem hv. stjórnarandstaða vill fara, þ.e. það á helst að slátra þessum skólum af því það á ekki að veita þeim sama framlag. Það á ekki að leyfa þeim að blómstra á sinn hátt og reyna að draga fram kosti þess að hafa fjölbreytni í skólasamfélaginu. Það á ekki að gera, um að gera bara að slátra þessu liði. Þannig er málið og þannig er stefnan. Það er miður að þurfa að fylgjast með þessu og upplifa það á 21. öldinni.

Varðandi áhyggjur ýmissa þingmanna af eignarhaldinu, ef breytingar yrðu á eignarhaldi eða samþykktum hlutafélagsins, þá má líka undirstrika það að auðvitað hefur menntamálaráðuneytið ákveðin tæki í sínum höndum til þess að fylgjast með því. Því ber í rauninni skylda til þess að fylgjast með, ekki bara þessum skólum, heldur öllum skólum, m.a. að halda uppi eftirliti með gæðum í háskólum, framhaldsskólum, grunnskólum og öllum skólastigum. Tækið sem menntamálaráðuneytið hefur í þessu tilviki eru m.a. kennslusamningarnir sem farið verður í eftir að hv. Alþingi hefur, vonandi, samþykkt þetta frumvarp.

Að sjálfsögðu mun ráðuneytið leggja sínar áherslur inn í þá kennslusamninga, líkt og það hefur gert við aðra háskóla. Þannig að menn hafi það líka í huga þegar þeir ræða það en oft og tíðum hef ég á tilfinningunni að menn haldi að menntamálaráðuneytið muni síðan ekki hafa aðkomu að þessu máli. Að sjálfsögðu mun ráðuneytið leggja sínar áherslur. Auðvitað er leiðarljósið það að efla fjölbreytni í námi og efla samkeppni en fyrst og síðast að efla gæði í námi, gæði í tækninámi, gæði í verkfræði, að auka framboð á þessum sviðum, að auka framboð til að mynda í kennslufræði sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á og minntist á.

Eitt af þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur er að þeir kennarar sem koma til með að útskrifast frá hinum nýja háskóla verði raungreinamenntaðir annars vegar og menntaðir í lýðheilsu hins vegar. Þá fengjum við háskólann, sem ef afar jákvætt, stofnun sem mun verða til húsa í Reykjanesbæ, sem að mér skilst mun heita Sportakademían sem hefur mikinn metnað til þess að sinna ákveðnum fræðslumálum.

Það jákvæða við þennan gerning er auðvitað það að stór og öflugur háskóli er að færa starfssvið sitt út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er jákvætt í þessu öllu saman. Menn eiga að fagna því að háskólar á þessu svæði séu tilbúnir til að leita samstarfs á öðrum svæðum á landinu. Það er m.a. einn jákvæður angi af þessu stóra og merka máli sem menn hafa fagnað mjög, til að mynda í atvinnulífinu. Ég vil vitna í orð sem dr. Hörður Arnarson í Marel ritaði í Morgunblaðið fyrir tæpum þremur mánuðum, með leyfi forseta:

„Fram hefur komið að sameinaður háskóli Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík mun leggja mikla áherslu á tæknifræði og verkfræði. Fyrir Marel og önnur hérlend tæknifyrirtæki er þetta mikið fagnaðarefni.“

Þessi orð þykja mér lýsa mjög vel því viðhorfi sem flestir sem hafa fylgst með þessum málum hafa til þessa mikilvæga máls. Því miður hefur stjórnarandstaðan ekki séð ljósið í því. Skilaboð hennar til hins nýja háskóla eru einfaldlega þessi: Við erum á móti ykkur, við viljum ekki veita ykkur brautargengi. Við viljum gera allt til að standa í vegi fyrir því að þessi merkilegi háskóli komist á laggirnar. Við viljum standa í vegi fyrir því að hér aukist samkeppni, valfrelsið o.s.frv. Það eru í rauninni þau dapurlegu orð sem eftir standa eftir þennan annars ágæta dag hér á Alþingi, að stjórnarandstaðan er á móti málinu. Við í stjórnarmeirihlutanum höldum hins vegar ótrauð áfram með þetta ágæta mál til þess auðvitað að efla allt háskólastigið. Við verðum að horfa á þetta sem eina heild. Hér er kominn einn öflugur háskóli til viðbótar.

Auðvitað er Háskóli Íslands hin mikla kjölfesta í háskólasamfélagi okkar. Það hef ég margoft sagt hér á þingi og við verðum að halda áfram að efla og hlúa að Háskóla Íslands og öðrum ríkisháskólum. Það hefur líka margoft komið fram í máli rektora ríkisháskólanna að þeir telji sig þurfa meira svigrúm til athafna. Þeir vilja fá nýtt lagaumhverfi og að því erum við að vinna með það að markmiði að ríkisháskólarnir geti fetað sig áfram í samkeppninni sem hefur verið komið á, ekki reyndar með aðstoð stjórnarandstöðunnar vel að merkja. Engu að síður er samkeppni komið á í háskólamálum og þar þurfa auðvitað ríkisháskólarnir að hafa tækifæri til að standa sig. Þeir hafa reyndar gert það með ágætum. Háskóli Íslands hefur ekki fjölgað nemendum jafnmikið og á undanförnum fjórum árum þar sem fjölgun í Háskóla Íslands hefur verið rúm 40% nemenda. Gróskan er mikil hvar sem borið er niður. Það er ekki þar með sagt að við eigum að staldra við og segja: Nú er nóg komið. Við þurfum að hafa metnað til að halda áfram. Það höfum við og til þess vonast ég til að fá stuðning hv. Alþingis.