131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:23]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. menntamálaráðherra svarar ekki heldur núna. Þá er best að spyrja hana bara beint: Hvað þýða orðin í yfirlýsingu menntamálaráðuneytisins, sem kölluð hefur verið, f.h.r.-yfirlýsingunni frá Guðmundi Árnasyni og Sólrúnu Jensdóttur, þessi hér, með leyfi forseta?

„Er að því stefnt að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.“

Dagný Jónsdóttir hv. þm. hefur talið að þetta þýddi að á næstu önnum yrði þessu námi komið upp í ríkisháskólum, í Háskóla Íslands eða annars staðar, og um það eru þingtíðindin til vitnis. Ef hæstv. menntamálaráðherra svarar ekki þessari spurningu á þann veg að ráðuneytið styðji Dagnýju er stuðningur Dagnýjar greinilega fallinn við málið því að þetta var skilyrði fyrir stuðningi Dagnýjar Jónsdóttur hv. þm. og Framsóknarflokksins alls. (Gripið fram í.)

Svo vil ég segja það, bara í góðum friði, við hæstv. menntamálaráðherra að ef hún telur að hún sé að lítilsvirða okkur með framkomu sinni hér í ræðustól með því að svara ekki spurningum okkar er það misskilningur. Hún er ekki einu sinni að lítilsvirða flokka okkar. Hún lítilsvirðir Alþingi og kjósendur.