131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:29]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi satt að segja að ég hefði miklu lengri tíma til að halda ræðu eftir svör hæstv. ráðherra sem voru afar rýr í roðinu. Hún segir stjórnarandstöðuna á móti málinu. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir að segja ekki að stjórnarandstaðan sé þar með á móti framförum í menntamálum, eins og hv. þm. Gunnar I. Birgisson, formaður menntamálanefndar, leyfði sér að halda fram.

Ég verð að segja að mér finnst það lágkúrulegt af hæstv. ráðherra að halda því fram æ ofan í æ að stjórnarandstaðan sýni því fólki sem ætlar sér að reka þennan skóla ekki traust. Það er lágkúrulegt vegna þess að við höfum staðið við bakið á yfirlýsingum menntamálanefndar sem gerðu ráð fyrir því, þegar Tækniháskóli Íslands var stofnaður, að þar yrði virkt samráð og samstarf við atvinnulífið, við nákvæmlega þá aðila sem ætla að taka að sér rekstur þessa skóla núna.

Það sem við skiljum hins vegar ekki, a.m.k. ekki við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er hvers vegna í ósköpunum til eru fjármunir úr ríkissjóði til að setja í tækninám á háskólastigi þegar það er einkarekið en það voru ekki til fjármunir til þess meðan það hét Tækniháskóli Íslands, sem átti þó að starfa í fullu samráði og samstarfi við þá öflugu aðila sem munu núna verða eignaraðilar. Í þessu er stór allsherjarmótsögn sem hæstv. ráðherra gerir ekki tilraun að svara heldur fer hér í lágkúrulegar málalengingar um hverju stjórnarandstaðan sé á móti og sakar okkur um að lítilsvirða það fólk sem kemur að skólanum.

Mér er misboðið að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki geta svarað á málefnalegri hátt þeim ræðum sem við höfum haldið í þá tvo daga sem 2. umr. hefur staðið um þetta mál, mjög málefnalegum ræðum. Við höfum komið með málefnalegar spurningar, stutt þær málefnalegum rökum, og við eigum annað og betra skilið en þetta frá hæstv. menntamálaráðherra.