131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:10]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Viku af júní í fyrra lýsti utanríkisráðuneytið því yfir að íslensk stjórnvöld hefðu komið á framfæri við Bandaríkjamenn andmælum vegna mannréttindabrota í Guantanamo. Þann 11. júní var birt fréttatilkynning frá ráðuneytinu þar sem farið var yfir þau samskipti. Ég hef kynnt mér þau nokkuð vel en verð að segja að það segir sitt um ástandið að þetta gerist ekki fyrr en stéttarsamtökin í landinu, ASÍ og BSRB, ásamt ungliðahreyfingum Frjálslyndra, Vinstri grænna og ungra jafnaðarmanna ásamt nokkrum vefritum höfðu hrint af stað undirskriftasöfnun til að hvetja íslensk stjórnvöld til að gera einmitt þetta. Þetta voru því mótmæli í kyrrþey.

Slík mótmæli skipta nánast engu máli og eru lítið annað en friðþæging. Það sem máli skiptir er hvað sagt er opinberlega, helst á pólitískum vettvangi þar sem mannréttindabrjóturinn er veikur fyrir. (Forseti hringir.) Það hafa fulltrúar okkar í utanríkismálum, hvorki hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, né hæstv. núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, nokkurn tíma gert.