131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:11]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Meðferð fanganna í Guantanamo er mikið hneyksli á sviði mannréttindamála. Þar er á ferðinni enn ein einhliða tilraun Bandaríkjamanna til að skilgreina nýjan rétt eða öllu heldur órétt, að skilgreina hóp einstaklinga þannig að hann njóti hvorki almennra borgaralegra mannréttinda né verndar sem stríðsfangar. Í raun sé um að ræða einhvers konar skynlausar, réttlausar skepnur sem njóta ekki einu sinni dýraverndarlaga. Færa má rök fyrir því að fangarnir í Guantanamo séu verr settir hvað þetta snertir en dýr í búri.

Bandaríkjamenn þurfa að fá um það skilaboð frá heimsbyggðinni að þeim muni ekki líðast, hvorki þessi tilraun né aðrar, eins og t.d. sú að undanskilja sjálfa sig lögsögu stríðsglæpadómstólsins í Róm, heldur verði til þess ætlast að þeir fari að alþjóðalögum eins og aðrir. Það væri fróðlegt að vita hvaða afstöðu íslensk stjórnvöld hafa haft uppi gagnvart því og þeim þrýstingi Bandaríkjamanna (Forseti hringir.) að fá ýmsar þjóðir til að fallast á að þeir séu undanþegnir lögsögu stríðsglæpadómstólsins, sem er auðvitað skylt mál.