131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Meðferð Bandaríkjamanna á föngum í Guantanamo.

411. mál
[12:13]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Meðferð Bandaríkjamanna á föngum sínum, hvort heldur er í Afganistan, Írak og hvað þá Guantanamo er einfaldlega ógeðsleg og gott að heyra hjá hæstv. utanríkisráðherra að það hefur verið komið á framfæri við sendinefnd Bandaríkjanna skilaboðum til ráðamanna í Washington. Við hljótum þó að spyrja hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi notað tækifærið þegar hann hefur átt bein og milliliðalaus samskipti við ráðamenn í Washington til að koma á framfæri áhyggjum sínum, hvort hann telji ástæðu til að fordæma formlega þessa meðferð og fyrst hann telur rétt að beita sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í málinu hvort við megum vænta þess að hann muni ræða í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hina alvarlegu stöðu mannréttindamála í Guantanamo og sömuleiðis í öðrum fangelsum Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum.