131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:18]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason) (F):

Frú forseti. Fyrir rúmum 40 árum hófust mikil náttúruundur og náttúruhamfarir suður af Íslandi og upp reis úr sæ eyja sem síðar fékk nafnið Surtsey. Þar fæddist nýtt land og er fyrir vikið alveg einstakur atburður, heimssögulegur atburður og hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeim breytingum sem þessi stóra eyja hefur tekið síðan sem mætir stöðugt ágangi sjávar.

Annað sem er merkilegt varðandi eyjuna er að strax í upphafi bar vísindasamfélag okkar gæfu til að taka ákvörðun um að fylgjast frá upphafi með landnámi lífvera. Var það gert strax frá því að hægt var að stíga fæti á eyjuna og hefur verið gert alla tíð síðan. Því má segja að Surtsey sé heimssögulegt fyrirbrigði, bæði fyrir að vera eitt yngsta land veraldar og hins vegar fyrir þær einstöku rannsóknir og kortlagningu á landnámi lífvera sem þar hafa farið fram. Það er afskaplega mikilvægt að varðveita þær upplýsingar og það sem er og hefur verið gert þar.

Surtsey hefur meira og minna verið í umsjá og varðveislu Surtseyjarfélagsins sem hefur gegnt þar afskaplega mikilvægu og góðu starfi, eins og ég nefndi áðan, og eyjan hefur verið lokuð af þeim ástæðum að menn hafa viljað verja hana fyrir ágangi til að trufla ekki rannsóknir og kortlagningu á landnámi lífvera. Hins vegar eru mjög margir spenntir fyrir því að geta stigið fæti á þennan heimssögulega stað til að snerta, koma við og sjá með eigin augum og heimsækja þennan merka stað. Má segja að það sé afskaplega svipað og með annað náttúruundur sem eru Galapagoseyjar sem eru verndaðar en þangað eru heimilaðar sérlega valdar ferðir undir mjög ströngu eftirliti til að gæta lífríkisins og þangað fer reglulega fjöldi ferðamanna til að njóta þeirra náttúruundra.

Nú er það vitað að í heiminum hafa fjölmargir ferðamenn mikinn áhuga á þessu og eru jafnvel tilbúnir til að kosta miklu til til að geta stigið fæti á og fengið að upplifa svona einstök náttúrufyrirbrigði sem eru einstök á heimsvísu og þess áhuga hefur gætt hér. Ég leyfi mér því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvort til standi að heimila ferðamönnum að stíga fæti á Surtsey, að sjálfsögðu undir ströngu eftirliti o.s.frv.