131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:26]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir afskaplega greinargott svar og fagna yfirlýsingu hennar. Eins og fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni fylgdist hann vel með gosinu eins og við fleiri, en við vorum í landi en hann fékk að stíga mjög fljótt á eyjuna svo hann hefur taugar til hennar. Surtsey er afskaplega merkilegt heimssögulegt fyrirbæri og ég tel mjög mikilvægt að hún sé varin fyrir ferðamönnum og því raski sem því fylgir að ferðamenn fái aðgang að eyjunni. Það hefur tekist afskaplega vel til og ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er ekki tímabært að aflýsa friðlýsingunni. Við eigum að fylgjast afskaplega vel með og leyfa vísindamönnum að sinna starfi sínu og þeir miðla svo til okkar þekkingu sinni.