131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Skoðunarferðir í Surtsey.

525. mál
[12:27]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Ég fagna þeim. Ef við ræðum um ferðamenn er hægt að fara með leyfi Surtseyjarfélagsins út í Surtsey en það eru oft mjög válynd veður og ég tel ekki tímabært að reyna það. Við höfum reynt á það. Surtsey er opin fyrir öllum vindum og landtaka er mjög erfið. Menn fara þangað á gúmmítuðrum og þurfa að fara út aftur og það getur skaðað okkur. Aftur á móti er það mjög sögulegt sem er að gerast í lífríkinu þarna og ég tel að auka eigi þá fræðslu, þetta er kennslubókarefni sem þarna er að gerast.

Komnar eru það margar gróðurtegundir í Surtsey að ég hef verið spurður að því hvort Hrekkjalómafélagið sé að bæta við einhverri tegund því þetta er sérstakt rannsóknarefni sem er að gerast í lífríkinu þar.