131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Landnám lífvera í Surtsey.

526. mál
[12:32]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason) (F):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn tengist þeirri sem var til umræðu rétt áðan, um skoðunarferðir í Surtsey. Ég spyr út í landnám í Surtsey og þarf í sjálfu sér ekki að endurtaka það sem hér hefur verið sagt. Þetta er einstakt heimssögulegt fyrirbrigði, að tekist hafi að kortleggja hvernig land er numið af lífverum frá upphafi. Það er heimssögulegt og hefur gefið vísindasamfélaginu ómetanlegar upplýsingar. Þær eru einstakar. Þess vegna hafa menn auðvitað viljað stíga varlega til jarðar hvað varðar umferð um Surtsey eins og rætt var hér áðan.

Nú er það svo að Surtseyjarfélagið, sem einkum hefur haldið utan um þessa kortlagningu og gert af miklum myndarbrag, er með eigin heimasíðu og hefur gefið út ritgerðir um það sem á eyjunni hefur fundist. Mér finnst hins vegar, frú forseti, að þær ritgerðir séu nokkuð takmarkaðar, miðist meira við vísindamenn og séu fyrir vikið ekki nógu aðgengilegar almenningi. Ég tel að almenningur sé hins vegar nokkuð áhugasamur um þetta. Það hefur sýnt sig að bæði Íslendingar og hinn almenni ferðamaður eru mjög áhugasamir um íslenska náttúru og ekki síst um þetta sérstaka fyrirbrigði sem er til staðar í Surtsey. Ég tel því afskaplega mikilvægt að það efni og þær upplýsingar sem fyrir eru og hafa verið kortlagðar séu gerðar almenningi nokkuð aðgengilegar. Og það sem meira er, að haldið sé uppi markvissri fræðslu um þetta einstaka fyrirbrigði, hvernig land er numið af lífverum, alveg nýtt land.

Ég vil því leyfa mér að beina fyrirspurn, í framhaldi af hinni fyrri í dag, til hæstv. umhverfisráðherra um hvort til standi að gera þessar merku upplýsingar aðgengilegri og efla fræðslu um landnám lífvera í Surtsey.