131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Landnám lífvera í Surtsey.

526. mál
[12:40]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög skemmtileg umræða. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að koma Surtsey á dagskrá í dag. Það er mjög skemmtilegt að ræða þessi mál og Surtsey gefur einstakt tækifæri fyrir allan almenning til að fá upplýsingar um hvernig land er numið af lífverum. Þetta stórt og merkilegt verkefni fyrir allan almenning og auðvitað námsmenn líka og sýnir líka hve mikilvægt er að halda friðlýsingu á Surtsey.

Ég mundi vilja sjá Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum þar sem hægt væri að fá allar upplýsingar um Surtsey. Það mundi sannarlega efla ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum. Surtsey er á vissan hátt eign Vestmannaeyinga, hún er innan þeirra landhelgi ef svo má segja. Ég tel að það gæti verið mikið tækifæri fyrir Vestmannaeyinga, að reisa Surtseyjarstofu.