131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Fíkniefni í fangelsum.

562. mál
[12:45]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Okkur berast af og til fréttir af því að fangar hafi verið staðnir að því að neyta ólöglegra fíkniefna innan veggja fangelsanna. Einnig að um sé að ræða verulega löglega lyfjaneyslu þeirra sem viðhaldi þeirri lyfjafíkn sem þeir eru haldnir þegar til afplánunar refsinga kemur.

Það er þekkt staðreynd að sífellt fleiri afbrot og ofbeldisverk eru tengd fíkniefnaneyslu, sífellt stærri hluti þeirra sem afplána dóm eru við komu í fangelsi háðir notkun eiturlyfja. Það hefur oft verið bent á það af hálfu aðstandenda fanga að nauðsynlegt sé að hver einstaklingur sem hefur afplánun og er háður neyslu eiturlyfja eigi kost á meðferð og læknishjálp við fíkninni strax í upphafi fangelsisvistar en ekki í lok hennar eins og nú er. Ef þannig væri staðið að verki mætti ætla að verulega drægi úr tilraunum til að smygla eiturlyfjum inn í fangelsin og úr þörfinni fyrir ávísun lyfja sem eru ávanabindandi.

Fangelsismálastofnun hefur ítrekað bent á þörfina fyrir meðferðardeild í fangelsum og í úttekt Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingum var bent á þetta sama atriði varðandi fangelsin hér á landi.

Á árinu 2000 var áformað að byggja upp meðferðardeild í fangelsinu á Litla-Hrauni og var hafist handa við að þjálfa og mennta fangaverði til starfa á deildinni. Sérstök fjárveiting til rekstrar hennar fékkst hins vegar hvorki á fjárlögum 2002 né 2003 eins og Fangelsismálastofnun lagði til. Fangelsismálastofnun telur mikilvægt að boðið verði upp á meðferð við fíkniefnaneyslu sem hefst strax og fangi kemur til afplánunar og að skipulagðri árangursmældri vímuefnameðferð sé síðan viðhaldið á vímuefnalausri deild fangelsanna. Í þetta verkefni hefur ekki fengist fjármagn. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvað hefur verið gert í fangelsum til að stemma stigu við neyslu:

a. ólöglegra fíkniefna,

b. löglegra fíkniefna og ávísaðra lyfja?

2. Hversu margir fangar urðu uppvísir að eiturlyfjaneyslu í fangelsum á síðasta ári og á hvern hátt var brugðist við því?