131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Fíkniefni í fangelsum.

562. mál
[12:47]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur um þriðjungur fanga afplánað refsingu fyrir fíkniefnabrot og er þar um mikla aukningu að ræða frá fyrri árum. Þá má gera ráð fyrir að allt að 60% fanga eigi við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Fíkniefni berast helst inn í fangelsin með gestum og hlutum sem sendir eru til fanga. Starfsfólk fangelsa fær sérstaka þjálfun í fíkniefnaleit. Samkvæmt lögum um fangelsi og fangavist eru starfsmönnum fangelsa tiltæk ýmis úrræði er hafa það að markmiði að draga úr notkun ólöglegra fíkniefna í fangelsum. Skipta slíkar leitir og sýnatökur hundruðum ár hvert.

Skömmu eftir að ég varð dómsmálaráðherra óskaði ég eftir tillögum um aðgerðir gegn fíkniefnavanda í fangelsum, einkum á Litla-Hrauni. Á grundvelli þeirra var ákveðið að kaupa færanlegt fíkniefnaleitartæki og auka notkun fíkniefnaleitarhunda í fangelsinu á Litla-Hrauni. Jafnframt var ákveðið að setja á laggirnar tilraunaverkefni til eins árs í samvinnu embættis ríkislögreglustjóra, Fangelsismálastofnunar, fangelsisins á Litla-Hrauni og lögreglustjóranna í Reykjavík, á Selfossi og Keflavíkurflugvelli. Tilraunaverkefninu lauk í lok síðasta árs og var það samdóma álit þátttakenda að verkefnið hefði tekist vel og lýstu þeir sig allir reiðubúna að halda því áfram. Af hálfu ráðuneytisins var fallist á framhald verkefnisins og þess jafnframt óskað að um mitt þetta ár liggi fyrir tillögur ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnunar um framtíðarfyrirkomulag við fíkniefnaleit og fíkniefnaeftirlit í fangelsum landsins þar sem m.a. verði kannað hvort ástæða sé til að hafa ávallt til taks fíkniefnaleitarhund á Litla-Hrauni og að öðru leyti mótaðar tillögur um hvernig best verði staðið að skipulagi þessara mála í framtíðinni.

Að mati Fangelsismálastofnunar ríkisins hefur orðið mjög jákvæð þróun varðandi lyfjamál á Litla-Hrauni sem einkum má rekja til vandaðra vinnubragða Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi. Ströng viðmið eru notuð við ávísun lyfja og skrifar enginn læknir upp á lyf af sérstökum bannlista án þess að fyrir liggi samþykki heilbrigðisstarfsmanna í fangelsinu og málið hafi verið tekið fyrir á samráðsfundi. Læknar ávísa ekki ávanabindandi lyfjum nema þegar fangar koma inn í fráhvarfi eftir fíkniefnaneyslu. Margir fangar tóku því illa þegar þeim var neitað um lyf á bannlista og þurfti að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi lækna. Nú eru fangar nánast án þessara lyfja og hefur ástandið í fangelsinu gerbreyst til hins betra að mati forstöðumanns þess. Lyfjakostnaður fyrstu sjö mánuði ársins 2004 var um fjórðungi lægri en á árunum á undan og ekki þarf lengur að gæta öryggis lækna á sama hátt og í upphafi þessara árangursríku aðgerða.

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun voru teknar 343 þvagprufur í fangelsinu á Litla-Hrauni á síðasta ári. Gáfu 85 þeirra jákvæða svörun við neyslu fíkniefna en 258 reyndust neikvæðar. Þá komu upp 27 tilvik þar sem fangar neituðu að gefa þvagprufu. Til samanburðar má nefna að árið á undan reyndust 108 þvagprufur vera jákvæðar gegn slíkri neyslu. Þeim föngum er uppvísir hafa orðið að notkun slíkra lyfja er iðulega boðin aðstoð af heilbrigðisstarfsfólki fangelsisins. Þá hefur einstökum föngum verið gefinn kostur á að ljúka afplánun sinni í áfengis- og fíkniefnameðferð. Frá árinu 1990–2003 hefur 282 föngum verið veitt heimild til að ljúka afplánun í áfengis- og fíkniefnameðferð og luku 203 meðferðinni að fullu en 79 þeirra voru vistaðir aftur í fangelsi.

Þegar fangi kemur í afplánun og á við fíkniefnavandamál að stríða er nauðsynlegt að hefja afeitrun þegar í stað og halda fanganum frá fíkniefnum út afplánunina með ýmsum fríðindum. Með því næst helsta markmið betrunar, þ.e. að fækka endurkomum í fangelsi.

Ég vil að lokum leggja á það áherslu að í frumvarpi til laga um fullnustu refsinga er að finna nauðsynlegt umboð fyrir ráðuneytið og Fangelsismálastofnun til að taka á málum fanga, m.a. að því er varðar úrræði til að stemma stigu við fíkniefnaneyslu í fangelsum. Vænti ég góðs samstarfs við þingmenn um þann þátt málsins á þessu þingi við afgreiðslu frumvarpsins um fullnustu refsinga.