131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Fíkniefni í fangelsum.

562. mál
[12:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Ég get tekið undir það að náðst hefur ákveðinn árangur varðandi leitina, skipulagða leit innan fangelsa. Það er hins vegar alveg jafnaugljóst að það þarf að bæta verulega úr hvað varðar þá fanga sem koma til afplánunar og eru háðir fíkniefnum sem eru, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, þriðjungur fanga sem er ekki lítið. Eðli afbrota og fíkniefnaneysla, bæði innan og utan veggja fangelsa, hefur breyst alveg gífurlega á undanförnum tiltölulega fáum árum. Þetta er vandamál sem margítrekað hefur verið bent á af Fangelsismálastofnun og aðstandendum og tekin var ákvörðun árið 2000 um að bæta úr. Það hefur hins vegar ekki gerst.

Ég er sannfærð um það, hæstv. ráðherra, að ef um væri að ræða öflug meðferðarúrræði strax við upphaf afplánunar fangelsisdóms þá drægi sjálfkrafa úr þeim hvata sem er til að reyna að smygla eiturlyfjum inn í fangelsi landsins. Það drægi þá jafnframt úr lyfjanotkun sem svo sannarlega hefur þó gerst vegna góðrar vinnu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og því eftirliti sem er af hennar hálfu. En það vantar líka mannskap til að sinna þessum málum miklu betur. Það vantar fleiri sálfræðinga til starfa. Það eru langir biðlistar, t.d. á Litla-Hrauni, eftir þjónustu sálfræðinga og það er eins í hinum fangelsunum. Þangað til komið er með meðferðarúrræði við upphaf afplánunar mun þetta vandamál verða mjög alvarlegt innan veggja fangelsa.