131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Fíkniefni í fangelsum.

562. mál
[12:56]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ef ég hefði verið spurður um meðferðarúrræði í upphafi afplánunar og þau atriði hefði ég náttúrlega rætt um það. Ég var ekki spurður um það því að spurningin snerist í fyrsta lagi um hvað hefði verið gert í fangelsum til að stemma stigu við annars vegar neyslu ólöglegra fíkniefna og hins vegar löglegra fíkniefna og ávísaðra lyfja, og í öðru lagi var spurt hversu margir fangar hafi orðið uppvísir að eiturlyfjaneyslu í fangelsum á síðasta ári og á hvern hátt brugðist hafi verið við því. Þetta voru spurningarnar sem ég var að svara. Það er svolítið furðulegt að þingmenn komi síðan hér upp og telji að ég hafi átt að tala um eitthvað allt annað en ég var spurður um. (Gripið fram í.)

Hins vegar er það svo að í frumvarpinu um fullnustu refsinga, sem liggur fyrir þinginu, er tekið á þessum málum á þann veg að verið er að leggja á ráðin um að skapa heimildir fyrir fangelsisyfirvöld að taka á þessum málum á þann hátt sem nú er talið skynsamlegast miðað við allt starfsumhverfi fangelsanna.

Ég árétta það, frú forseti, að ég tel að ég hafi svarað fyrirspurninni. Ef þingmenn vilja ræða við mig um meðferðarúrræði og annað slíkt á að spyrja um það.