131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[12:57]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Undanfarin missiri hefur mikið verið skrafað, rætt og deilt um framtíð Reykjavíkurflugvallar og hver hún á að vera. Oft og tíðum hafa menn stillt þessari umræðu upp sem einhvers konar baráttu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og ef flugvöllur mundi víkja úr Reykjavík væri það atlaga að landsbyggðinni.

Eins og allir vita er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi Reykjavíkur að flugvöllurinn fari niður í eina braut árið 2016 og heyrst hafa hugmyndir um að flugvöllurinn eigi að víkja alveg á árunum þar á eftir. Auðvitað hlýtur maður að velta fyrir sér hvaða tilgangur er í því að ætla að reka hálfan flugvöll í Reykjavík og hvaða kostnaður væri því samfara, því ef aðeins væri um eina braut að ræða yrði talsvert mikið af fluginu að flytjast til Keflavíkur.

Við megum einnig vænta þess á næstu árum að íslenska ríkið þurfi að taka meiri þátt í rekstrarkostnaði á Keflavíkurflugvelli en verið hefur hingað til og við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það sé skynsamlegt fyrir okkur að reka tvo flugvelli svo skammt frá hvor öðrum.

Það hefur komið skýrt fram hjá hæstv. samgönguráðherra að hann vill halda Reykjavíkurflugvelli fyrir innanlandsflug nánast sama hvað það kostar, eftir því sem manni helst hefur heyrst. Á fjölmennum borgarafundi í Stapa í Reykjanesbæ kom fram að hæstv. ráðherra hyggst ekki beita sér fyrir því að flug flytjist í einhverjum mæli frá Reykjavík yfir til Keflavíkurflugvallar í sinni ráðherratíð. Á sama fundi komu fram fyrirheit frá hæstv. ráðherra um að flýta tvöföldun á Reykjanesbraut og einnig hefur hann svarað fyrirspurn frá mér og öðrum hv. þingmönnum um ferðatíma milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.

Ástæðan fyrir þessum spurningum öllum er einfaldlega sú að reyna að finna út hvað það tekur langan tíma að ferðast úr miðborg Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar og eins að leiða fram hvað þyrfti þá að gera til þess að bæta úr samgöngumannvirkjum til að stytta þann tíma verulega frá því sem nú er. Fjármunir sem notaðir eru í rekstur á Reykjavíkurflugvelli og gætu sparast við flutning yfir til Keflavíkurflugvallar nýtast ekki til framkvæmda í samgöngukerfinu. Ef um sparnað væri að ræða með því að flytja flugið til Keflavíkur mætti nýta þá fjármuni sem þar væru til að flýta gatnaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu þannig að fljótlegra og auðveldara væri að komast frá svæðinu til Keflavíkurflugvallar.

Ég hef því spurt hæstv. ráðherra eftirfarandi þriggja spurninga:

1. Hver er árlegur heildarkostnaður íslenska ríkisins af rekstri flugvallar í Reykjavík?

2. Hvað af þessum kostnaði gæti sparast ef allt flug yrði fært til Keflavíkurflugvallar?

3. Gerir ráðherra ráð fyrir að íslenska ríkið eigi eftir að taka meiri þátt í rekstrarkostnaði Keflavíkurflugvallar en verið hefur til þessa? Ef svo er, um hvaða upphæðir gæti þar verið að ræða?