131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Vegrið á Reykjanesbraut.

565. mál
[13:16]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa fyrirspurn en hún er í fyrsta lagi: „Hver er áætlaður kostnaður við vegrið á Reykjanesbraut frá Hafnarfirði að Keflavíkurflugvelli?“

Svar mitt er þetta: Reykjanesbraut frá Straumi í Hafnarfirði að Njarðvík í Reykjanesbæ sem tekin hefur verið ákvörðun um að tvöfalda á næstunni er 25 km löng. Ef sett væri vegrið á miðeyju vegarins yrði notað svokallað tvöfalt vegrið sem kostar 10–12 millj. kr. á hvern kílómetra. Kostnaður við að setja vegrið í miðeyju þessa kafla er því áætlaður um 250–300 millj. kr. Kostnaður við einfalt vegrið er áætlaður 68 millj. kr. á hvern kílómetra hvorum megin. Kostnaður við vegrið með veginum í ytri vegköntum er því áætlaður 150–200 millj. kr. fyrir hvorn kant.

Í annan stað spyr hv. þingmaður: Telur ráðherra æskilegt að setja vegrið meðfram þessum þjóðvegi?

Ráðuneytið hefur leitað upplýsinga frá Vegagerðinni um þessi efni og byggist svar mitt á þeim upplýsingum. Reykjanesbraut er lögð í samræmi við verkstaðal Vegagerðarinnar. Breidd miðeyju er 11 metrar og breidd innri axla akbrautanna er 0,75 metrar hvorum megin. Breidd milli akbrauta er því samtals 12,5 metrar. Verkstaðallinn tekur mið af erlendum fyrirmyndum, eins og jafnan er gert á Íslandi, og við þessar aðstæður er ekki talin þörf á vegriði milli akbrautanna. Við breikkun vegarins í fjórar akreinar hefur jafnframt verið farið yfir lagfæringar á fláum eldri vegarins þannig að hætta á slysum við útafakstur minnkar verulega. Almennt er það álitinn betri kostur að draga þannig úr líkum á slysum heldur en að gera það með vegriðum. Auk þess hefur vegrið þann ókost að draga til sín snjó í skafrenningi og auka erfiðleika við snjóhreinsun á brautinni. Vegrið hefur verið sett upp á stuttum köflum nýja vegarins þar sem ekki var hægt að draga úr halla vegarfláa vegna náttúruverndar, en þar er um hraundrýli að ræða á náttúruminjaskrá í nágrenni vegarins sem að sjálfsögðu var ekki hægt að hrófla við. Þegar vegrið eru sett upp þarf að taka tillit til þess að vegriðið sjálft skapar nokkra hættu og þarf því ætíð að meta hvort sú hætta sé minni en hættan sem vegriðum er ætlað að koma í veg fyrir. Það er þetta sem hönnuðir veganna þurfa að vega og meta hverju sinni, þ.e. hvernig þessi öryggisbúnaður skuli vera og það er mat Vegagerðarinnar að ekki séu aðstæður til þess að setja vegrið að svo komnu máli þarna. Að sjálfsögðu þarf þó jafnan að vera með slíka hluti í endurskoðun og það er hluti af umferðaröryggisaðgerðum Vegagerðarinnar, en mat þeirra núna er að við núverandi aðstæður séu ekki aðstæður til að setja upp vegrið umfram það sem búið er að gera.