131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Vegrið á Reykjanesbraut.

565. mál
[13:20]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ég spyr hann enn hvort það eigi að skilja þetta svo að umræðurnar um vegrið séu í raun út í hött þar sem þær auki ekki öryggi og gefi ekki ástæðu til þess að leyfa meiri hraða á brautinni eða hvort núverandi aðstæður krefjist þess ekki, af því hæstv. ráðherrann tók fram að Vegagerðin teldi ekki þörf á þessu við núverandi aðstæður. Við hvaða aðstæður er þörf á þessu? Væri t.d. þörf á þessu ef menn vildu bæði tryggja öryggi betur og leyfa hugsanlega meiri hraða á brautinni til þess að auðvelda samgöngur milli Reykjavíkursvæðisins og Keflavíkurflugvallar?

Ég tek undir það með hv. þingmanni Jóni Gunnarssyni að þó að tölurnar virðist við fyrstu sýn háar þá eru þær það í raun ekki ef maður lítur á þessa mikilvægu samgönguæð sem við höfum áður rætt hér nokkuð í salnum og er einhver sú mikilvægasta á landinu, einkum þegar útlit er fyrir það að á næstu árum verði Reykjavíkurflugvöllur of dýr til þess að hafa hér í rekstri vegna þess að Íslendingar taki að sér, sem sú sjálfstæða þjóð sem þeir eru og eiga að vera, að borga a.m.k. sinn part af rekstri Keflavíkurflugvallar. Það eru bara þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir, forseti, hvort sem mönnum þykir vænt um Reykjavíkurflugvöll eða vilja vera fljótir á fundi, það er ósköp einfaldlega buddan sem við þurfum að horfa á. Ég hlakka nú ekki til þess að standa með mönnum að því að setja fé í tvöfalt flugvallarkerfi hér á suðvesturhorninu frekar en að verja því til velferðarmála eða annarra framfaramála.