131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Kennslutap í kennaraverkfalli.

473. mál
[14:48]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spyr ýmissa spurninga um kennslutap vegna verkfalls grunnskólakennara sem stóð sl. haust í tæpa tvo mánuði og aðkomu ráðuneytisins að því máli. Hv. þingmaður hefur áður lagt mjög svipaðar spurningar fyrir mig um aðgerðir í kjölfar verkfalls kennara eins og fram kemur á 333. þingmáli og ef mig minnir rétt hefur þetta einnig verið tekið upp undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins.

Þann 8. desember sl. var greint frá því að menntamálaráðuneytið hefði verið í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga um hvernig brugðist yrði við afleiðingum verkfalls grunnskólakennara. Þar kom fram að enginn ágreiningur hafi verið á milli sambandsins og ráðuneytisins um að það sé á hendi hvers sveitarfélags fyrir sig að grípa til aðgerða til að leitast við að bæta nemendum upp þá kennslu sem þeir urðu af vegna verkfalls grunnskólakennara, að svo miklu leyti sem slíkt væri unnt.

Einnig kom fram að ráðuneytið hafði sent sveitarstjórnum ósk um skil á greinargerðum þar sem fram kæmi með hvaða hætti skólahald yrði skipulagt í einstökum sveitarfélögum út skólaárið. Í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaganna kom fram að ráðuneytið legði mikla áherslu á að skólar nýttu alla virka daga sem eftir eru á skólaárinu til kennslu, þar á meðal daga sem í venjulegu ári eru notaðir til ýmiss annars starfs.

Menntamálaráðuneytið hefur fengið skriflega greinargerð frá 14 sveitarfélögum þar sem fram kemur með hvaða hætti skólahald í sveitarfélaginu verði skipulagt út skólaárið í kjölfar verkfalls grunnskólakennara. Ráðuneytið hefur einnig fengið munnlegar upplýsingar frá ýmsum sveitarfélögum. Fram kemur að sveitarfélög hafa ákveðið að bregðast við með mismunandi hætti, sum ráðgera engar breytingar á skóladagatali þrátt fyrir verkfall, önnur bæta við nokkrum skóladögum, fella niður skerta skóladaga, fækka prófadögum, fella niður vetrarfrí og almennt nýta betur virka skóladaga. Í sumum tilvikum greiða sveitarfélög fyrir viðbótarkennslu og þá nær það annaðhvort til allra nemenda skólans eða sérstaklega til nemenda í 8. og 10. bekk grunnskóla.

Sveitarfélög hafa því brugðist með ýmsum hætti við að bæta upp kennslutap í verkfalli kennara og hefur útfærslan verið í höndum skólastjóra í samráði við foreldraráð skólanna og skólanefndir.

Menntamálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvaða einstakir skólar hafa sótt um viðbótarfjármagn til sveitarfélaga sinna til að bæta upp kennslutap í verkfalli kennara en vitað er að fjölmargir skólar hafa fengið viðbótarfjárframlag frá sveitarfélögum til að bjóða nemendum aukakennslu, ekki síst nemendum í 10. bekk grunnskóla sem koma til með að gangast undir samræmd próf í vor.

Menntamálaráðherra mun ekki hafa forgöngu um að allir skólar bæti kennslutapið upp að öðru leyti en áður hefur komið fram í hvatningu til sveitarfélaga að nýta betur alla virka daga út skólaárið til kennslu, enda fullt samráð haft við Samband íslenskra sveitarfélaga þar um.

Menntamálaráðuneytið hefur litið svo á að lögvarinn verkfallsréttur grunnskólakennara leiði til þess að ákvæði grunnskólalaga um skyldunám víki á meðan verkfall varir. Því sé eðlilegt að líta sömu augum á niðurfellingu kennslu vegna verkfalls kennara og þegar fella verður niður kennslu af ófyrirsjáanlegum ástæðum. Því er ekki hægt að skylda sveitarfélög til að bæta nemendum upp kennslu vegna verkfalls frekar en ef um aðrar ófyrirsjáanlegar ástæður væri að ræða, t.d. ófærð eða náttúruhamfarir. Það þarf hins vegar ekki að koma í veg fyrir að sveitarfélög geri allt sem í þeirra valdi stendur til að uppfylla ákvæði grunnskólalaganna. Ráðuneytið mun ekki hafa frekari afskipti af því með hvaða hætti einstök sveitarfélög bæta upp kennslutapið, enda er það á valdi hvers sveitarfélags.

Það er rétt að taka fram að mats- og eftirlitsdeild ráðuneytisins fylgist árlega með því að sveitarfélög uppfylli lögbundna skyldu um kennsludaga skv. 26. gr. grunnskólalaganna og hefur sent sveitarstjórnum bréf ef misbrestur hefur verið á því og ítrekað lögbundnar skyldur sveitarfélagsins. Þetta eftirlit ráðuneytisins hefur leitt til þess að langflest sveitarfélög hafa uppfyllt lagaákvæðið undanfarið nema þau sem sótt hafa um undanþágu frá árlegum starfstíma skv. 26. gr. grunnskólalaganna með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum.

Mats- og eftirlitsdeild ráðuneytisins mun að loknu þessu skólaári að sjálfsögðu kanna starfstíma skólanna og skoða sérstaklega áhrif verkfall grunnskólakennara í því sambandi og taka saman greinargerð þar að lútandi.