131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Kennslutap í kennaraverkfalli.

473. mál
[14:52]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er leitt að heyra að ekki liggi fyrir hvaða skólar hafa sótt um viðbótarfjármagn og hvernig að málum verði staðið. Einnig eru mikil vonbrigði að heyra að ekki hafi verið lagðar til og unnið eftir samræmdum tillögum til að bæta börnunum tapið sem varð í verkfallinu á skóladögum þeirra og þeirri kennsluskyldu sem þau eiga rétt á. Ástæða er til að skora á hæstv. ráðherra að bregðast ekki skyldu sinni við að verja rétt barnanna og fylgja því eftir af fremsta megni að sveitarfélögin uppfylli það að börnunum sé bættur skaðinn og jafnvel sé lagt til viðbótarfjármagn til þeirra verkefna ef það stendur í veginum fyrir því að einstök sveitarfélög geti boðið upp á aukna kennslu og fleiri skóladaga til handa börnunum.

Ein og hálf milljón skóladaga er mikill dagafjöldi og öllum ljóst að mikill og töluverður skaði hefur orðið á skólagöngu barnanna og þau eiga rétt á því að hann sé bættur eins og kostur er. Eina leiðin til að gera það samræmt þannig að ekki sé neins misræmis gætt milli barna, sveitarfélaga, landsvæða eða skóla er að lagðar séu til og unnið eftir samræmdum tillögum til sveitarfélaganna þar sem þess er farið á leit að eftir þeim sé unnið, viðbótarfjármagn skaffað til að standa undir þeirri kennsluaukningu sem þessu fylgir og vinnuaukningu fyrir kennara.

Það eru því vonbrigði að heyra að ekki hafi verið unnið eftir samræmdum tillögum og að ráðuneytið hafi ekki fylgt því fastar eftir að hafa eftirlit með því hvaða skólar og hvaða sveitarfélög bæta börnunum tapið og hvernig þau gera það.