131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Kennslutap í kennaraverkfalli.

473. mál
[14:54]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. fyrirspyrjandi hafi hlustað nægilega vel á svar mitt, en mig grunar að svo hafi ekki verið því ráðuneytið hefur einmitt fylgst vel með því hvað hefur átt sér stað í skólunum og í hinum mismunandi sveitarfélögum landsins og hvað þau hafa gert í kjölfar verkfalls grunnskólakennara. Auðvitað mun ráðuneytið, eins og ég gat um áðan, fylgjast með því, m.a. mats- og eftirlitsdeildin eins og lög segja til um.

Miðað við orð hv. fyrirspyrjanda er ljóst að hann er til að mynda í mótsögn við það sem stjórnendur skólanna, þ.e. sveitarfélögin, vilja gera því það eru einfaldlega mismunandi áherslur í sveitarfélögunum varðandi skólastefnuna. Að sjálfsögðu vilja þau leggja sínar áherslur inn í það hvernig hægt er að meta og mæta þörfum grunnskólabarna þannig að þau geti fengið uppfyllt þennan rétt sinn samkvæmt grunnskólalögum. Ég tel ekki rétt að menntamálaráðherra gangi inn á sjálfræði sveitarfélaganna, en engu að síður mun ráðuneytið fylgja eftir eftirliti sínu með ráðum og dáð og fylgja því eftir að grunnskólanemendur fái þann rétt sem þeim ber innan þess ramma sem lög kveða á um.

Það er því verið að uppfylla allt sem sagt er í lögum en um leið virðum við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og mér finnst miður að hv. fyrirspyrjandi skuli ekki sjá það.