131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins.

536. mál
[14:56]

Fyrirspyrjandi (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Málefni Ríkisútvarpsins hafa á síðustu missirum og árum verið reglulega til umræðu í þjóðfélaginu af ýmsum ástæðum en þessa dagana vegna yfirlýsinga hæstv. menntamálaráðherra um hugmyndir um breytt rekstrarumhverfi stofnunarinnar. Þegar málefni ríkisstofnunarinnar koma til umræðu poppar alltaf upp, ef svo má segja, félagsskapur sem kallar sig Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins og tekur þátt í umræðunni. Ég efast ekki um tilvist félagsskaparins en mér hefur reynst nokkuð erfitt að átta mig á því hver formleg staða samtakanna er gagnvart Ríkisútvarpinu og hvort samtökin tala máli stjórnenda þeirrar stofnunar, en þau gefa sig út fyrir að gera það í málflutningi sínum.

Ég gerði mér far um að reyna að kanna það upp á eigin spýtur hver formleg staða Hollvinasamtakanna væri gagnvart Ríkisútvarpinu og varð satt best að segja ekki mjög ágengt í þeirri athugun. Það er ekkert um samtökin á heimasíðu RÚV, þeirra er ekki getið í ársreikningum Ríkisútvarpsins, þeirra er ekki getið á fjárlögum og litlar sem engar upplýsingar er að hafa um samtökin varðandi stjórn, stjórnarmenn eða aðrar upplýsingar. Eina sem veitir í raun vísbendingu um stöðu samtakanna er að finna í blaðagreinum eftir Margréti Sverrisdóttur, sem er núverandi formaður Hollvinasamtakanna og framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins. Í grein sem hún ritaði fimmtudaginn 23. október árið 2003 í Morgunblaðið kemur fram að samtökin voru stofnuð á árinu 2002 og ástæðan fyrir tilurð hópsins hafi verið m.a. hugmyndir um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þau sjónarmið eru sömuleiðis rakin í annarri sambærilegri grein sem Margrét Sverrisdóttir ritaði í Morgunblaðið 21. ágúst 2004.

Eins og ég segi er ég ekki viss um að Hollvinasamtökin tali máli stjórnenda Ríkisútvarpsins en þegar betur er að gáð verður ekki betur séð en að áróður Hollvinasamtakanna, hversu góð sem þau kunna að vera, sé býsna líkur málflutningi Frjálslynda flokksins í málefnum Ríkisútvarpsins. Ég leyfi mér t.d. að nefna til sögunnar tillögu til þingsályktunar frá árinu 2001 sem flutt var af Sverri Hermannssyni, fyrrum þingmanni Frjálslynda flokksins. Það hvarflar að manni þegar svona er í pottinn búið að hin ágætu samtök hafi með höndum pólitískan áróður undir dulnefni því ég get ekki betur séð en að samtökin séu að útvarpa stefnu Frjálslynda flokksins (Forseti hringir.) í málefnum Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.

Í ljósi þess spyr ég hæstv. ráðherra:

Hver er formleg staða svokallaðra Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins gagnvart stofnuninni?