131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins.

536. mál
[15:02]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hún kemur svolítið á óvart þessi fyrirspurn og að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eigi erfitt með að átta sig á frjálsum félagasamtökum og reyni að gera lítið úr starfi þeirra. Ég heyri ekki betur en að það andi fremur köldu í garð Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins frá hæstv. menntamálaráðherra. Mér finnst það sannast sagna ekki vera sæmandi.

Eftir því sem ég þekki til, og ég þekki nokkuð til þessara samtaka, þá eru þau þverpólitísk. En þau hafa unnið sér eitt til óhelgi. Og hvað skyldi það vera? Þau vilja varðveita Ríkisútvarpið í þjóðareign og hafa leyft sér að álykta í þá veru. Þess vegna er væntanlega reynt að gera lítið úr samtökunum. Ég hef hins vegar heyrt innan úr Ríkisútvarpinu, af hálfu útvarpsstjóra og fleiri aðila, að þeir hafi tekið fagnandi því frumkvæði sem frá þessum samtökum kemur. Ég ítreka að þetta eru þverpólitísk samtök þar sem fram fer lýðræðisleg umræða og menn reyna að láta gott af sér leiða.