131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins.

536. mál
[15:07]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda Sigurði Kára Kristjánssyni með að þetta er ósköp eðlileg fyrirspurn og ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér stöðu Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins, sem enginn hefur verið að fetta fingur út í úr ræðustól.

Aftur á móti vekur umræðan mig til umhugsunar um þau orð sem voru látin falla meðal ýmissa lýðræðishjalandi þingmanna stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Marðar Árnasonar og fleiri þingmanna, þegar þeir koma með þær athugasemdir að ekki megi koma með þessa fyrirspurn, þetta sé furðuleg fyrirspurn og það eigi bara að fara út í bæ og spyrja aðra menn. Gildir það ekki um allar fyrirspurnir hér á Alþingi? (SKK: Auðvitað.) Auðvitað er það þannig. Að það megi ekki koma með einfalda og skýra fyrirspurn um hver séu formleg staða og tengsl Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins við Ríkisútvarpið er sérkennilegt. Henni var svarað hreint og klárt af minni hálfu en mér finnst það furðuleg afstaða, að það megi ekki koma með þessa fyrirspurn.

Er það þannig að það megi bara koma með sumar fyrirspurnir, sumar reyndar margoft eins og oft hefur verið reyndin, en aðrar ekki, sem ekki henta þessum lýðræðisþenkjandi þingmönnum? Þetta vekur mig til umhugsunar, (Gripið fram í.) hæstv. forseti.

Síðan er rétt að hnykkja á því að stefna Sjálfstæðisflokksins og landsfundar Sjálfstæðisflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins er alveg skýr. Ríkisútvarpið á áfram að vera í eigu þjóðarinnar.