131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:09]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það bárust athyglisverðar fréttir í byrjun síðustu viku af aðalfundi Félags grunnskólakennara sem haldinn var á Selfossi 18.–19. febrúar, sem samþykkti ályktun þar sem lagt var til við menntamálaráðuneytið að samræmd próf í grunnskólum yrðu lögð niður.

Með leyfi forseta langar mig að vitna aðeins í þessa ályktun svo að hv. þingmenn glöggvi sig á því um hvað málið fjallar. Í ályktuninni segir að með vaxandi þróun í átt að einstaklingsmiðuðu námi síðustu ár og framtíðarsýn fræðsluyfirvalda í þá átt hafi samræmd próf ekki þann tilgang og vægi sem þeim var ætlað í upphafi heldur gangi í raun þvert á þá stefnu.

Annars staðar í ályktuninni segir, með leyfi forseta:

„Samræmd próf eru í dag orðin markmið skólastarfs og stýring í stað þess að vera uppbyggilegt mælitæki fyrir áframhaldandi starf.“

Enn fremur segir að samræmd próf í 4. og 7. bekk leggi óeðlilegar kröfur á nemendur og geti haft mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Samræmd próf í 10. bekk gagnist grunnskólanum ekki og séu í raun orðin inntökupróf í framhaldsskóla. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Mun eðlilegra er að framhaldsskólar meti sjálfir hvort nemendur standist inntökuskilyrði.“

Virðulegi forseti. Mér þykir þetta töluvert athyglisverð ályktun frá stórum faghópi, grunnskólakennurum, sem vinnur með börn og undirbýr fyrir þessi samræmdu próf og hefur gert um nokkra hríð. Þess vegna þykir mér mikilvægt að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hver viðhorf hennar og ráðuneytisins séu til þessarar ályktunar. Ég tel mikilvægt að hlusta á grunnskólakennara sem vinna við það og eru sérhæfðir í að vinna með þeim börnum sem þessi próf þreyta.

Sömuleiðis þætti mér athyglisvert að heyra hvaða rök ráðuneytið hafi á móti sannfærandi rökum kennara, ef einhver eru, eða hvort ráðuneytið taki undir með grunnskólakennurum þegar þeir segja að samræmd próf í 10. bekk séu í raun ekki annað en inntökupróf í framhaldsskóla og að samræmd próf í 4. og 7. bekk leggi óeðlilegar kröfur á nemendur og hafi neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra.

Þetta þætti mér mikilvægt að heyra um frá hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að grunnskólakennarar vinna með þessi börn og eru hópur sem við verðum að hlusta á í þessu sambandi.