131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:12]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í fyrirspurn hv. þingmanns er vísað til þriðja aðalfundar Félags grunnskólakennara frá 18.–19. febrúar síðastliðnum þar sem lagt er til við ráðuneytið að samræmd próf í grunnskólum í núverandi mynd verði lögð niður en í ályktuninni kemur fram að grunnskólakennarar telji stöðluð greinandi stöðupróf æskilegri en núverandi samræmd próf í 4., 7. og 10. bekk.

Í umræðunni um framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla er rétt að rifja upp markmið þeirra, eins og það er sett fram í núverandi löggjöf. Ákvæði um samræmd próf í 4. og 7. bekk grunnskóla er að finna í lögum um grunnskóla frá árinu 1995 en í greinargerð með því frumvarpi segir m.a.:

„Niðurstöður samræmdra prófa eiga að gefa foreldrum, kennurum og skólastjórnendum vísbendingar um að hve miklu leyti nemendur hafa náð grundvallarfærni sem frekara nám byggir á og vera þannig leiðbeinandi um áherslur í kennslunni. Í ljósi niðurstaðna á skólinn að bregðast við og veita þeim nemendum, sem ekki hafa náð lágmarksþekkingu og færni, sérstakan stuðning.“

Prófin í 4. og 7. bekk veita einnig þessum aðilum tækifæri til að bera saman námsárangur nemenda á ákveðnu tímabili og veita þannig upplýsingar um framfarir og námsstöðu nemendanna.

Í reglugerð nr. 415/2000 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í 4. og 7. bekk er kveðið á um að samræmd próf skuli haldin í íslensku og stærðfræði. Þar kemur skýrt fram að tilgangur þeirra prófa sé að vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur og veita nemendum, forsjáraðila og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemendanna. Öllum nemendum er skylt að þreyta samræmd próf en unnt er að veita einstökum nemendum undanþágur á grundvelli 36. gr. og 48. gr. grunnskólalaganna. Um er að ræða nemendur með annað móðurmál en íslensku, nemendur sem hafa dvalið langdvölum erlendis eða nemendur sem víkja, eins og þar segir, svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf.

Eins og fram kemur, hæstv. forseti, er áhersla lögð á að prófunum í 4. og 7. bekk sé ætlað að sýna stöðu hvers nemanda og vera leiðbeinandi fyrir kennara, skóla og foreldra. Því er af og frá að samræmd próf eigi að vera markmið skólastarfs, eins og lesa má í ályktun Félags grunnskólakennara Það hlýtur það að vera hvers kennara og skóla að meta hve mikla áherslu hann leggur á kenna beinlínis fyrir samræmd próf hverju sinni.

Í 10. bekk eru samræmd próf valfrjáls fyrir nemendur og gefst þeim kostur á sex samræmdum prófum í sex námsgreinum; íslensku, ensku, dönsku, náttúrufræði, samfélagsfræði og stærðfræði. Markmið samræmdra prófa í 10. bekk eru m.a. að veita nemendum og foreldrum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemandans, athuga hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi grein hafi verið náð og vera viðmið fyrir inntöku nemenda á mismunandi brautir síðan í framhaldsskólum.

Í ályktun Félags grunnskólakennara segir að samræmd próf í 10. bekk séu í raun inntökupróf í framhaldsskóla og gagnist því grunnskólum ekki.

Hér er á þetta að líta:

Annars vegar fær hver skóli niðurstöður úr samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði þannig að hægt er að sjá frammistöðu hvers nemanda og skoða hvort og hvaða framförum nemandinn hafi tekið frá 4. og síðan 7. bekk í þessum tveimur greinum. Það ætti að vera mikil hjálp fyrir einstaka kennara og skóla við skipulagningu kennslu og greiningu á sterkum og veikum hliðum kennslunnar í þessum mikilvægu kjarnagreinum skólans. Hins vegar vil ég minna á að samkvæmt reglugerð um inntökuskilyrði í framhaldsskóla gildir meðaltal einkunna á samræmdu lokaprófi og skólaprófi. Því er ekki um það að ræða að árangur á samræmdu prófi ákvarði eingöngu möguleika nemenda á að komast inn á einstakar brautir í framhaldsskóla.

Að lokum vil ég benda á að þrátt fyrir að samræmd próf í 10. bekk séu valfrjáls fyrir nemendur velja flestir þeirra að þreyta sem flest próf. Árlega þreyta yfir 90% þeirra samræmd próf í íslensku, ensku og stærðfræði, yfir 70% fara í dönskuprófið og milli 50 og 60% þreyta próf í samfélagsfræði og náttúrufræði. Með hliðsjón af því sem ég hef rakið tel ég að markmiðssetning og tilgangur með samræmdum prófum í grunnskóla sé skýr. Þá hefur reynslan á framkvæmd þessara prófa sannað gildi þeirra.

Því tel ég ekki koma til greina að hætta framkvæmd prófanna. Ég fagna hins vegar auðvitað allri umræðu um þennan mikilvæga þátt skólastarfsins.