131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:17]

Mörður Árnason (Sf):

Hæstv. menntamálaráðherra stendur við samræmdu prófin og leggur sig að veði í þeim. Ég tel að þessi samræmdu próf í grunnskólunum sem byrja í níu ára bekk sem einu sinni hét og ganga síðan upp eftir öllu kerfinu og enda í framhaldsskólunum séu klunnaleg aðferð til að mæla stöðu nemenda og einstakra skóla. Ég tel að þau virki gegn tilgangi sínum og að við eigum að leggja þessi próf niður, a.m.k. breyta þeim verulega og nota þau á allt annan hátt.

Það gladdi mig í morgun þegar ég var á pólitískum fundi í Flensborgarskóla með ýmsum þeim sem hér eru staddir í salnum að undir þessi sjónarmið tekur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem hingað til hefur ekki verið mjög sammála mér í menntamálum. Hann hefur miklar efasemdir um samræmd próf, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Það verður fróðlegt að heyra í andsvörum á eftir rökstuðning hans og andsvör hans við vilja hæstv. menntamálaráðherra og Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum.