131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:18]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með ályktun Félags grunnskólakennara og þeim sem hér talaði á undan mér um að samræmd próf í núverandi mynd í grunnskólum og sérstaklega hjá níu ára börnum séu tilgangslítil tímaskekkja. Þau leika mörg börn grátt og eru óeðlilegar kröfur sem engin rök eru fyrir að leggja á svo ung börn og etja þeim þannig allt of ungum og óhörðnuðum út í allt of harða samkeppni og allt of opinn samanburð.

Samræmd próf í núverandi mynd á að mínu mati að leggja af, finna aðrar og leiðbeinandi áherslur fyrir skólana til að mæla getu barnanna og frammistöðu, aðrar mildari og manneskjulegri leiðir. Það gegnir kannski öðru máli með slík próf hjá eldri börnum en hjá svo ungum börnum eru engin rök fyrir því að samræmd próf séu notuð sem slíkur mælikvarði og á hiklaust að leggja þau af. Það eru vonbrigði að heyra að hæstv. ráðherra tekur ekki undir þetta og hefur ekki skilning á því mikilvæga markmiði sem það er að leggja af í grunnskólum samræmd próf í núverandi mynd.