131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:20]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Samræmd próf eru öllum skólum að sjálfsögðu nauðsynleg til að geta metið árangur af skólastarfi. Stóra spurningin snýst hins vegar um það með hvaða hætti þau próf eru lögð fyrir og hvernig niðurstöður þeirra eru túlkaðar. Í því að velja samræmt próf felst auðvitað ákveðið gildismat, sérstaklega gagnvart þeim greinum sem ekki eru samræmdar. Kannski er veikleiki okkar í því með hvaða hætti við höfum túlkað niðurstöður úr samræmdum prófum, og e.t.v. hefur verið of langt gengið í því að tengja samræmd próf við útskrift. Þar kann að liggja veikleiki og hefur á stundum leitt skólastarf í ógöngur.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði varðandi samræmdu prófin í 4. og 7. bekk. Þau eru fyrst og fremst könnunarpróf sem eiga að gefa nemendum og skólum hugmynd um það með hvaða hætti skólastarfið er rekið, hvar skólinn stendur og hvar einstakir nemendur standa. Það ber að vara við því að oftúlka niðurstöður eins og því miður allt of oft hefur verið gert, bæði hér í þingsölum og innan einstakra skóla.