131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:27]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir hreinskiptið svar. Hún taldi ekki koma til greina að hætta framkvæmd samræmdra prófa líkt og lagt er til af Félagi grunnskólakennara í ályktuninni. Jafnframt þakka ég þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það er augljóst að þetta mál brennur á mörgum. Það er ekki óeðlilegt að svo stór mælikvarði sem við leggjum á börnin komi til umræðu endrum og sinnum og hugsanlega til endurskoðunar.

Hæstv. ráðherra sagði að samræmd próf í 4. og 7. bekk væru mikilvæg könnunarpróf sem endurspegluðu hvar nemendur stæðu og skólinn. Þá vil ég benda á það að nám er meira en próf. Nám snýst líka um það að læra góð vinnubrögð, læra að vinna jafnt og þétt og þar koma til mælieiningar eins og ritgerðir, verkefnavinna o.fl. Ég hefði viljað heyra hér frá hæstv. ráðherra að meira mark væri tekið á þessari mjög svo ákveðnu ályktun frá Félagi grunnskólakennara sem er faghópurinn sem vinnur mest með börnunum. Félagið ályktar svo sterkt gegn samræmdum prófum sem er tæki sem kennarar eru sjálfir að vinna með. Ég hefði viljað að hæstv. ráðherra lýsti því hér yfir að við ættum að skoða þetta mál betur með kennurunum, fara yfir það hvort fullyrðingar um að samræmd próf í 4. og 7. bekk leggi óeðlilegar kröfur á nemendur og getu haft mjög neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þetta eru þannig yfirlýsingar að ég tel að við þurfum að skoða þær vel og vandlega.