131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:29]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað undir þessari fyrirspurn en vek jafnframt athygli á því að til að mynda þingmenn frá Samfylkingunni hafa endurspeglað mismunandi viðhorf. Er kannski ekki að furða. Mér sýnast samfylkingarmenn vera þríklofnir í afstöðu sinni til samræmdra prófa. Sumir mæla þeim bót, aðrir ekki.

Meginmálið er auðvitað að við þurfum að halda áfram að hafa einhverja ákveðna mælistiku sem metur hæfni nemandans og sýnir fram á hvaða færni hann hefur eftir ákveðinn tíma í skólanum. Auðvitað munum við halda áfram að þróa það tæki sem við erum með núna, samræmdu prófin. Ég kem ekki til með að hætta framkvæmd þeirra en eins og ég sagði áðan fagna ég allri umræðu um samræmd próf og við munum að sjálfsögðu hlusta á þær ábendingar sem við fáum með það að markmiði að gera þau betri og skilvirkari fyrir allt skólakerfið og fyrst og síðast nemendurna.