131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:36]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita, þ.e. lögreglu og hers, á vegum Atlantshafsbandalagsins felst í fyrsta lagi í því að kosta flutning á búnaði fyrir öryggissveitirnar til Íraks. Nú liggur fyrir að Ísland muni greiða fyrir flutning með flugvélum á rúmlega 500 tonnum af vopnum og skotfærum sem Slóvenar gefa Írökum. Kostnaðurinn verður um 40 millj. kr. og til greina kemur að greiða fyrir flutning á búnaði frá öðrum NATO-ríkjum.

Í öðru lagi hefur Ísland lagt rúmar 12 millj. kr. í sjóð bandalagsins sem greiðir ferðir og uppihald manna úr írökskum öryggissveitum vegna þjálfunar utan lands. Loks er kominn til Íraks Íslendingur sem starfa mun sem upplýsingafulltrúi hjá þjálfuðum sveitum NATO þar í landi.

Í utandagskrárumræðu um kosningarnar í Írak þann 17. febrúar sl. benti ég á að eftir þær mætti öllum vera ljóst að áframhaldandi hryðjuverk þar hefðu ekkert með alþjóðlega herliðið í landinu að gera, heldur væru þau glæpur gegn fólkinu í landinu og glæpur gegn lýðræðinu. Ég sagði einnig að því miður benti flest til þess að hryðjuverk mundu halda áfram í Írak. Svo hefur farið, eins og óhugnanlegar fréttamyndir sýna næstum daglega. Það er ljóst að áfram þarf að verja með oddi og egg lýðræðið og frelsisvonir Íraka. Þá skiptir miklu, auðvitað, að Írakar taki sjálfir þátt í þeirri baráttu enda stendur hugur þeirra til þess eins og sést af þeim fjölmörgu sem skrá sig til þjónustu í öryggissveitum landsins þrátt fyrir hótanir og samfelld ofbeldisverk gegn sjálfboðaliðum, óvopnuðum eins og menn þekkja til.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að forsenda þess að kalla megi alþjóðlega herliðið frá Írak er að landsmenn sjálfir geti gætt öryggis síns. Við eigum að stuðla að því. Alþjóðlega herliðið er í Írak núna með fulltingi Sameinuðu þjóðanna og að ósk írakskra stjórnvalda. Hið sama á við um þjálfun írakskra öryggissveita á vegum NATO sem öll bandalagsríkin taka nú þátt í.

Þá ber þess að geta að Ísland hefur einnig lagt sitt af mörkum í Írak með því að verja 300 millj. kr. í mannúðaraðstoð. Hv. þingmaður spurði sérstaklega um það og um ákvarðanir í því sambandi. Ég vil geta þess að þann 8. apríl 2003 var samþykkt í ríkisstjórn minnisblað þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar þar sem lagt var til að verja allt að 300 millj. kr. í neyðar- og mannúðaraðstoð. Það var spurt sérstaklega um það og stuðning við uppbyggingarstarf í Írak. Ákveðið var að verja 100 millj. kr. til neyðar- og mannúðaraðstoðar og 200 millj. kr. til enduruppbyggingar í kjölfar átakanna og hæstv. þáverandi utanríkisráðherra var falið að úthluta þessum fjárveitingum. Í dag hefur um 100 millj. kr. þegar verið ráðstafað til neyðar- og mannúðaraðstoðar, þ.e. lagðar í uppbyggingarsjóði Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur 7 millj. kr. verið ráðstafað til Rauða kross Íslands til uppbyggingarstarfs og verið er að skoða möguleika á að nota um 80 millj. kr. til kaupa á gervilimum frá fyrirtækinu Össuri. Þá eru eftir um 9 millj. kr.

Þá vil ég nefna að í utanríkisráðuneytinu er verið að skoða möguleika á því að styrkja sérstaklega stöðu kvenna og fjölskyldna í Írak í samvinnu við stofnanir Sameinuðu þjóðanna svo sem UNIFEM og matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í gegnum Alþjóðabankann og Rauða krossinn. Þetta var það sem hv. þingmaður lagði mikla áherslu á og ég vona að hann sé ánægður með að þessir þættir eru ekki síður, jafnvel miklu frekar, uppi á borði íslenskra stjórnvalda — eins og mér fannst hann hvetja til — heldur en aðrir þættir sem auðvitað þurfa líka að vera fyrir hendi, þ.e. tryggja öryggi í Írak.