131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:46]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðkoma íslensku ríkisstjórnarinnar að innrásinni í Írak og hernámi landsins er óafsakanleg. Í þessu samhengi ætla ég að staldra við tvennt.

Í fyrsta lagi vil ég mótmæla því að tveir ráðherrar, formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, skuli ítrekað lofa fjárframlögum til NATO og síðan til starfsemi í Írak án þess að fá umboð Alþingis til slíks. Ég vísa til NATO-fundarins í Prag í nóvember 2002 og til yfirlýsinga sem gefnar voru í mars 2003.

Í öðru lagi vil ég segja þetta: Það er hægt að láta peninga renna til annarra hrjáðra svæða í heiminum en Íraks, og ég mundi nú leggja til að svo yrði gert. Við eigum hins vegar að krefjast þess að Írakar fái notið eigin auðlegðar. Í Írak eru mestu olíulindir í heiminum öllum, jafnvel meiri en í Sádi-Arabíu. Írak var hins vegar leiksoppur nýlenduveldanna alla 20. öldina. Fyrst voru það Bretar sem síðan stjórnuðu í umboði Þjóðabandalagsins. Í skjóli þeirra hrifsuðu amerísk og bresk olíufyrirtæki olíuauðinn. Hann var þjóðnýttur á áttunda áratugnum, síðan beið Íraka styrjöld. Milljónir manna féllu á níunda áratugnum og síðan kom viðskiptabannið á þeim tíunda.

Þess vegna á krafa okkar að vera þessi: Olíuna til Íraka sjálfra. Við vitum hins vegar að amerísku og bresku olíufyrirtækin ætla að stela þessu og ég frábið að Íslendingar niðurgreiði þennan þjófnað.