131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stuðningur Íslands við þjálfun írakskra öryggissveita.

[15:56]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru fróðlegar og athyglisverðar umræður eins og vænta mátti. Það eru þó nokkur atriði sem upp úr standa. Menn tala ekki lengur neins staðar, nema þá hér á vegum Samfylkingarinnar, um að þetta sé hernámslið í Írak. Liðið er núna með samþykki Sameinuðu þjóðanna og yfirvalda í Írak. Þetta er alþjóðlegt herlið en ekki hernámslið þannig að það sé á hreinu.

Númer tvö er það algjörlega ljóst að mannúðaraðstoð og -hjálp verður ekki veitt svo að gagn eða vit sé í nema öryggi sé á svæðinu. Það gildir hið sama þar og annars staðar þannig að hvort tveggja verður að fara saman.

Í þriðja lagi er ljóst að við erum að veita miklu hærri upphæðir til mannúðarmála en til öryggismála. 15–20% af framlögum okkar eru til öryggisuppbyggingar en 80–85% til mannúðarmála, eins og kom fram í ræðu minni áðan. Að tala um að það sé forgangsatriði hjá okkur að setja peninga til öryggismálanna er ekki rétt, það er hins vegar auðvitað forgangsatriði hjá okkur að öryggi sé tryggt. Það er forsenda þess að uppbygging geti átt sér stað.

Að hverju beinast hermdarverkin? Olíuleiðslurnar sem tryggja hag Íraka eru sprengdar upp, þær eru sprengdar í loft upp. Það eru hermdarverk í gömlu Sovétríkjunum núna. Vill einhver fá kommúnsimann til baka? Kannski. Hermdarverk eru núna í Írak. Vill einhver fá Saddam Hussein til baka? Ég held ekki.

Menn eru sem betur fer á réttri leið, lýðræðið er að skjóta rótum og það er fagnaðarefni.