131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[16:00]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði verði innleidd í lög um einkaleyfi, málefni sem heyra undir iðnaðarráðherra, á undan þeim ákvæðum í tilskipun nr. 27 frá 2004 sem er hér áhrifavaldur og heyrir almennt undir starfssvið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að breytingar á lyfjalögum verði gerðar til að innleiða hana að öðru leyti.

Í nefndinni var ekki efnislegur ágreiningur um málið sjálft og framsetningu þess í lagatexta. Við erum því sammála 1. og 2. gr. frumvarpsins sem eru efnisgreinar þess og munum greiða atkvæði með þeim greinum. Við umfjöllun í nefndinni voru hins vegar ekki færð fram frambærileg rök fyrir því að láta breytingarnar á lögunum um einkaleyfi ganga fram fáeinum mánuðum á undan þeim breytingum á lyfjalögum og reglugerðum sem gera þarf til að innleiða tilskipunina, þvert á móti hafa ýmsir umsagnaraðilar mælt gegn því að þetta verði gert eða talið fram rök gegn því.

Minni hluti iðnaðarnefndar leggur því til að sú breyting sem í frumvarpinu felst komi til framkvæmda 30. október 2005 og flytur breytingartillögu um það. Verði sú tillaga okkar felld munum við greiða atkvæði gegn 3. gr. og sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.