131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[16:06]

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að ég sem formaður allsherjarnefndar tefldi fram þeirri breytingartillögu sem kom fram eftir að málið hafði verið afgreitt út úr nefndinni en ekki meiri hluti nefndarinnar.

Um þennan þátt málsins, þ.e. þann sem varðar þýðinguna, er mikilvægt að hafa í huga að allir sem hafa fjallað um málið voru sammála um að eðlilegt væri að í C-deild Stjórnartíðinda mætti birta alþjóðasamninga án þýðingar. Um þetta var ekki deilt. Deilurnar risu hins vegar um það hvernig ætti með að fara þegar viðkomandi reglur yrðu teknar upp í landsréttinn og þær birtar í A- og B-deildinni. Þá er mikilvægt að menn hafi í huga að það verður einungis í afar sérstökum tilvikum, mjög þröngt afmörkuðum tilvikum, sem alþjóðasamningar verða birtir á frummálinu í C-deildinni. Og þegar viðkomandi ákvæði verða síðan tekin upp í landsréttinum, með því að hér verður lagt fram frumvarp eða reglugerð samin af ráðherra og viðkomandi lög eða reglugerðir rata síðan inn í A- eða B-deildina, þarf annars vegar í hverju tilviki fyrir sig, samkvæmt þeirri breytingartillögu sem ég hef hér teflt fram, annaðhvort að koma til: samþykki þingsins — í hverju tilviki fyrir sig — eða samþykki dómsmálaráðherra.

Það er ekki hægt að sníða þessari undanþágu sem er skynsamleg og felur í sér mikið hagræði, og í ákveðnum tilvikum ákveðið öryggi í framkvæmd, þrengri stakk en hér er lagt til. Það er engin ástæða til að óttast þá breytingu sem ég hef hér mælt fyrir og ég legg til að málið hljóti samþykki eins og það liggur nú fyrir þinginu.