131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ítreka að það virðist vera gengið fram hjá því að við séum ein þjóð og grunnþjónusta eins og fjarskiptin eru einn mikilvægasti þátturinn í því að tengja þjóðina saman í eitt. Hvaða vit er í því að í Fossvoginum er Orkuveita Reykjavíkur og Landssíminn að leggja inn ljósleiðara í sömu götu og hver er að grafa sitt? Halda menn að það styrki fjarskiptin út um land? Nei, alls ekki, og ef sú stefna verður áfram verður stór hluti landsins afskiptur. Síminn er ekki á einhverjum horrenglum. Fyrirtækið er að skila miklum arði. Hagnaður af rekstri Landssímans var rúmir 3 milljarðar á sl. ári og upplýst að gert er ráð fyrir enn meiri hagnaði á næstu árum. Síminn hefur því verið ein besta mjólkurkýr ríkisbúsins um margra ára skeið og hvaða bóndi mundi selja bestu kúna til að þóknast einkavæðingaráformum með þessum hætti og ganga gegn hagsmunum stórra hluta þjóðarinnar? Enda hefur þjóðin mjög sterkar skoðanir á málinu og yfir 70% af þeim sem tóku þátt í síðustu Gallup-könnun vildu að fjarskiptakerfi Símans yrði áfram í opinberri eigu.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til að hin opinberu fjarskiptakerfi Símans, Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur verði sameinuð í eitt stórt og sterkt fjarskiptakerfi sem nái til allra landsmanna á jafnréttisgrunni. Ég krefst þess að söluferli Símans verði stöðvað, farið verði í að endurmeta allt málið (Forseti hringir.) og stefnt að því að sameina fjarskiptakerfi (Forseti hringir.) landsins í eitt og þjóðina líka í eitt.