131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:51]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á stórum stundum gerist það oft að Vinstri grænir koma í ræðustól og segja okkur að það eigi ekki að horfa á skoðanakannanir. Menn eigi hins vegar að fylgja hugsjónum sínum í blíðu og stríðu. Í því ljósi er dálítið athyglisvert að talsmenn Vinstri grænna hefji umræðuna á því að elta uppi skoðanakannanir og að þær séu skyndilega farnar að móta afstöðu hinna Vinstri grænu í þessu veigamikla máli. Það eru heilmikil tímamót í umræðunni.

Um hvað er verið að ræða? Við ræðum um söluna á Símanum sem er ákvörðun sem þegar hefur verið tekin. Fyrir liggur með hvaða hætti menn vilja fara í þau mál og ég hygg að sú skoðanakönnun sem verið er að vísa til vitni fyrst og fremst um það að fólk vilji tryggja að það sé samkeppni á þessu sviði. Hljótum við ekki að vinna að því? Eru menn virkilega svo harðir í afstöðu sinni að hafa sem mest í eigu ríkisins að þeir geti ekki horft til þess að það sé fyrst og fremst reynt að tryggja samkeppni á grundvelli lagasetningar alveg eins og búið er að gera núna varðandi fjarskiptalögin sem tryggja aðgang að hinu svokallaða grunnneti?

Það er fróðlegt að veita því athygli þegar við ræðum þessi mál að menn tala mikið í þessum orðaleppa um grunnnetið. Hins vegar er mjög djúpt á því að menn skilgreini hvað þeir eigi við með hugtakinu grunnnet. Það er hvergi skilgreint í lögum og væri auðvitað heilmikill mannsbragur að því ef þeir sem nú krefjast þess að hið svokallaða grunnnet yrði skilið frá segðu okkur nákvæmlega hvað þeir eiga við. Er ekki aðalatriðið að tryggja samkeppni? Aðalatriðið getur ekki verið að tryggja ríkisvæðingu, nema menn sem eru búnir að kasta hugsjónum sínum og hlaupa bara eftir skoðanakönnunum, þeir geta auðvitað talað í þá veru ef þeir sjá skoðanakönnun sem lýtur að því. Þá hlaupa þeir auðvitað upp til handa og fóta og fara í umræður í þinginu og veifa skoðanakönnunum, menn sem eru búnir að týna hugsjónum sínum.